Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Bíll fuðraði upp — „Feginn að börnin voru ekki með“

05.04.2022 - 13:55
Mynd: RÚV / RÚV
Bíll varð alelda á örfáum mínútum skammt frá Dalvík í gærkvöldi. Eigandinn sem var einn í bílnum þakkar fyrir að börnin hans voru ekki með honum.

Fann undarlega lykt

Kristján Már Þorsteinsson, Dalvíkingur, var rétt nýlagður af stað í átt að Akureyri þegar hann finnur undarlega lykt koma frá bílnum. „Ég byrja að finna gúmmí-brunalykt þegar ég er rétt kominn út úr bænum. Ég drep á hitanum í stýrinu og hitanum í sætinu en lyktin fór ekki. Svo opna ég gluggann og þá sé ég reyk upp úr stýrinu,“ segir hann. 

„Er kviknað í!“

Hann var fljótur að átta sig á því að ekki væri allt með felldu og stöðvaði bílinn. „Ég keyri út í kant og þegar ég drep á bílnum heyri ég svona snark-hljóð og hugsa bara: „Er kviknað í!“ Skömmu síðar átta ég mig á því að það er kviknað í í undir mælaborðinu bílstjóramegin.“ 

Gerist mjög hratt

Hann var fljótur að koma sér út úr bílnum og þakkar fyrir að hafa verið einn á ferð. „Ég hringi strax í 112 og á innan við einni mínútu er bíllinn svona útlítandi eins og sést á myndbandinu. Þetta gerist alveg gríðarlega hratt. Ég er feginn að börnin voru ekki með og þá þurft að upplifa þetta áfall.“