Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

26 sveitarfélög opin fyrir móttöku flóttamanna

05.04.2022 - 14:03
epa09868131 Ukrainian refugees look out from a bus as the leave the city of Bucha, Ukraine, 03 April 2022. Dmitrivka and the area around had recently been recaptured by the Ukrainian army from Russian forces. On 24 February, Russian troops had entered Ukrainian territory in what the Russian president declared a 'special military operation', resulting in fighting and destruction in the country, a huge flow of refugees, and multiple sanctions against Russia  EPA-EFE/ATEF SAFADI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
26 sveitarfélög hafa ýmist lýst yfir áhuga á að taka þátt í móttöku flóttafólks frá Úkraínu eða óskað frekari upplýsinga um verkefnið. Ekkert sveitarfélag hefur enn sem komið er gefið afsvar. Þetta kemur fram í svari félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu.

Ráðuneytið hefur óskað aðstoðar sveitarfélaga til að taka á móti flóttafólki frá Úkraínu. Undanfarið hafa starfsmenn þess fundað með fulltrúum sveitar- og bæjarstjórna víðsvegar um landið auk félagsmálastjóra. „Aðalefni fundanna er að ræða stöðu þeirra einstaklinga sem hafa neyðst til þess að flýja heimili sín til nágrannaríkja í kjölfar innrásar Rússlands í landið og hvernig best er að haga móttöku þeirra hér á landi. Ráðuneytið á þannig í samtali við bæði stór og smá sveitarfélög um að leggja móttöku flóttafólksins lið eftir getu og möguleikum, og hefur það samtal gengið vel,“ segir í svari ráðuneytisins.

Þar segir jafnframt að sveitarfélögin sem hafa lýst áhuga á að taka þátt í móttöku á flóttafólki með öllu sem því fylgir. „Allir sem fá útgefið dvalarleyfi á grundvelli ríkra mannúðarsjónamiða hafa sama rétt í því sveitarfélagi sem þeir hafa skráð lögheimili og aðrir íbúar sveitarfélagsins, og er sú þjónusta á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991.“

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og Fjölmenningarsetur hafa sett á fót bakvarðasveit til að aðstoða við móttöku flóttamanna. Leitað er að fólki sem talar úkraínsku og/eða rússnesku og óskað liðsinnis fólks sem hefur menntun á sviði heilbrigðis-, félags- eða menntavísinda.