
26 sveitarfélög opin fyrir móttöku flóttamanna
Ráðuneytið hefur óskað aðstoðar sveitarfélaga til að taka á móti flóttafólki frá Úkraínu. Undanfarið hafa starfsmenn þess fundað með fulltrúum sveitar- og bæjarstjórna víðsvegar um landið auk félagsmálastjóra. „Aðalefni fundanna er að ræða stöðu þeirra einstaklinga sem hafa neyðst til þess að flýja heimili sín til nágrannaríkja í kjölfar innrásar Rússlands í landið og hvernig best er að haga móttöku þeirra hér á landi. Ráðuneytið á þannig í samtali við bæði stór og smá sveitarfélög um að leggja móttöku flóttafólksins lið eftir getu og möguleikum, og hefur það samtal gengið vel,“ segir í svari ráðuneytisins.
Þar segir jafnframt að sveitarfélögin sem hafa lýst áhuga á að taka þátt í móttöku á flóttafólki með öllu sem því fylgir. „Allir sem fá útgefið dvalarleyfi á grundvelli ríkra mannúðarsjónamiða hafa sama rétt í því sveitarfélagi sem þeir hafa skráð lögheimili og aðrir íbúar sveitarfélagsins, og er sú þjónusta á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991.“
Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og Fjölmenningarsetur hafa sett á fót bakvarðasveit til að aðstoða við móttöku flóttamanna. Leitað er að fólki sem talar úkraínsku og/eða rússnesku og óskað liðsinnis fólks sem hefur menntun á sviði heilbrigðis-, félags- eða menntavísinda.