Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Nýtt útlendingafrumvarp orðið að lögum fyrir vorið

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Jón Gunnarsson, Dómsmálaráðherra segir að nýtt útlendingafrumvarp, sem hann ætlar að mæla fyrir, eigi eftir að greiða fyrir málsmeðferð og auka skilvirkni við afgreiðslu umsókna um vernd hérlendis. Hann segir samstöðu um frumvarpið meðal ríkisstjórnarflokkanna og hann væntir þess að það verði að lögum fyrir vorið. 

Afgreiðsla umsókna flóttafólks tekur langan tíma og hefur fjöldi umsækjenda sem rétt eiga á þjónustu tvöfaldast frá því í byrjun mars og eru það nú 1.400 manns. Dómsmálaráðherra ætlar að leggja fram nýtt útlendingafrumvarp sem hann segir nær því sem gildi á Norðurlöndunum. 

„Það er markmiðið með þessu að gera kerfið skilvirkara og eins að skýra þær leikreglur sem gilda þegar viðkomandi hefur hlotið hér málsmeðferð og hefur verið hér með löglærðan talsmann allan tímann í kerfinu og fengið synjun þá verða þeir að þeir fari úr landi.“

Undanþágur verða á því, segir Jón, sem snúa meðal annars að börnum og barnshafandi konum. 

Samstaða um útfærslu frumvarpsins

Jón segist vænta þess að nýja frumvarpið verði í ákveðnum forgangi. „Um þetta mál er samstaða meðal ríkisstjórnarflokkanna, það hefur farið í gegnum ríkisstjórnarborðið og verið afgreitt hjá þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna og náðist um það samstaða í útfærslu og það er ánægjuefni og ég hef þær væntingar að þetta klárist fyrir vorið,“ segir Dómsmálaráðherra. 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV