Margt býr í þokunni

Mynd: Borgarleikhúsið / Borgarleikhúsið

Margt býr í þokunni

04.04.2022 - 14:33

Höfundar

Barnasýningin Þoka var nýverið frumsýnd á Litla sviði Borgarleihússins. Þoka er íslensk/færeysk leiksýning fyrir börn sem leikur á mörkum vísinda og þjóðsagna. Nína Hjálmarsdóttir, leikhúsgagnrýnandi Víðsjár, skellti sér á sýninguna.

Nína Hjálmarsdóttir skrifar:

Þegar ég var á menntaskólaaldri týndumst ég og samferðamaður minn í þoku eftir að hafa skellt okkur í náttúrulaug sem var utan alfaraleiðar. Ekki nóg með það heldur var ekkert símasamband og við urðum ósammála um það í hvaða átt bíllinn væri og fórum hvor í sína áttina. Ég var hrædd og varð eins og ofurnæm fyrir umhverfi mínu. Hvert einasta hljóð kveikti í ímyndunaraflinu og ég var handviss um að hér hlyti að vera krökkt af draugum sem vildu mér ekkert gott. Á endanum fann ég bílinn og keyrði um þangað til ég fann samferðamanninn aftur, og við sættumst á að halda liði næst þegar við týnumst í þoku. Þetta var nokkuð skelfilegt á meðan á því stóð, en eftir á fannst mér frekar magnað að hafa lent í svona ævintýri í þykkri heiðaþokunni. Þótti næstum því vænt um þessa reynslu.

Þokuvísindamönnunum Huldu Mjørkadal og Karli Karlssyni tókst líka að týnast í þokunni í verkinu Þoka sem var frumsýnt á laugardaginn á Litla Sviðinu í Borgarleikhúsinu. Höfundar verksins eru Aðalbjörg Árnadóttir og Salka Guðmundsdóttir ásamt leikhópnum. Verkið er íslenskt og færeyskt og talar Hulda færeysku en Karl íslensku. Þau eru þokusérfræðingar, en þó svo að ég viti að norðlæg tungumál innihalda ógrynni af orðum yfir ýmis veðurskilyrði hafði ég aldrei heyrt um svona margar gerðir af þokum. Hulda og Karl eru í leiðangri einhvers staðar á norðurhveli, á ystu nöf, í leit að fyrirbæri sem kallast ofursjaldgæfa þokan eða á færeysku: ofursjaldsama mjørki. Draumur þeirra er að fanga þokuna og jafnvel vinna til Nóbelsverðlauna fyrir þokurannsóknir sínar. Sagan á bak við þetta sjaldgæfa fyrirbæri er að kóngsdóttir hafi óhlýðnast og haldið í fjallgöngu, en á skall óveður svo hún fann sér skjól í helli. Nema að þar bjó vond galdrakelling, að sjálfsögðu, sem lagði það á kóngsdótturina að hún breyttist í þoku,- og því sé ofursjaldgæfa þokan í rauninni kóngsdóttir í álögum. Hulda og Karl leika sér með þokuna og gera alls kyns tilraunir, eins og að prófa að gleypa öll mismunandi þokusýnin sem þau hafa safnað. Verkið snýst því um mjög einfalt konsept, sem virkar og leyfir áhorfendum að njóta þess að staldra við í fyrirbærinu þoka, kafa djúpt inn og uppgötva töfra náttúrunnar með persónunum. 

Gunnvá Zachariasen og Hilmir Jensson eru mjög sjarmerandi í hlutverkum sínum sem Hulda og Karl, og var erfitt að sjá hvort þau eða áhorfendur skemmtu sér betur, jafnt ungir sem aldnir. Það gerir mikið fyrir verkið að Hulda talar færeysku, og Karl svari á íslensku, það bæði býður upp á alls konar fyndinn misskilning en er líka fræðandi og skapar stemmingu þar sem annars konar samskipti en orð fá pláss, hið huglæga fær að þrífast, og það þarf ekki að þýða allt. Karl leggur mikla áherslu á yfirburði vísindanna, hann vill sko enga vitleysu hér, sem býr til athyglisverða togstreitu við þjóðsögurnar sem þau segja hvort öðru, og tilfinningarnar sem vakna þegar hlutir byrja að stækka í þokunni. Hulda er opnari fyrir því dulda, og fer meðal annars með færeyska vísu fyrir Karl um Nykurinn hræðilega, sem er hálfur hestur og hálfur maður. Færeyjar eru auðvitað frægar fyrir mikla þoku, en einhvern tímann heyrði ég að flugvöllurinn í Færeyjum væri stundum lokaður stóran hluta ársins vegna þokuskilyrða. Önnur persóna í verkinu sem gegnir lykilhlutverki er Krumminn góði, en heiðurinn af mögnuðu uppbroti er þegar Nykurinn sjálfur birtist í túlkun Hilmis Jenssonar. Öfugt við hrikalegu þjóðsöguna um Nykurinn sem hleypur með fólk ofan í heiðavötn var þessi Nykur eins og sambland af Páli Óskari og skemmtilegum frænda í fjölskylduboði. Hann var seiðandi og mjúkur í hreyfingum, glitrandi taglið hans dansaði um meðan hann stundi orð eins og ‘kósý’ og ‘partý’ og reyndi þannig að tæla Huldu ofan í vatnið. Persónan er sannarlega konfektmoli í sterku handriti, en þarna hefur leikstjórn Aðalbjargar Árnadóttur skapað ógleymanlega senu sem snýr upp á og hinsegir hefðbundna þjóðsögu.

Tónlist Gunnars Karels Mássonar gerði innkomu Nykursins safaríkari, með þokkafullu jazzstefi, en hljóðmynd hans af Lóusöng og hrossagauk varpaði áhorfendum beint upp á hálendi. Kóngsdóttirin fékk líka að óma í gegnum undurfagran söng, eða eins konar bergmál að handan. Þokan sjálf fær það hlutverk sem hún þarf að hafa í sviðsmyndahönnun Brynju Björnsdóttur, en mátti sjá unga áhorfendur reyna að grípa og leika sér með þokuna. Áhugafólk um leikhúsreyk fá svo sannarlega sínum þörfum mætt á þessari sýningu. Aðrir sviðsmunir eins og þokumælirinn, þoksýnin litríku, þokubyssan sem sendir neyðarmerki eða Krumminn góði voru snotur og mikilvæg í að skapa þétta heildarmynd. Lýsing Ólafs Ágústs Stefánssonar tónaði einstaklega vel við reykinn og sviðsmunina, en fagurfræði sterkra djúpra lita gaf verkinu þá töfra sem það á skilið. Búningarnir, sem voru líka hannaðir af Brynju Björnsdóttur, neyddu mig til að endurhugsa fordóma mína gagnvart túristum í útivistarfatnaði því litapalletan og samsetningin gerði þá mjög eftirsóknarverða. 

Það var greinilegt að börnin í salnum skemmtu sér konunglega. Það er eitthvað hressandi við það að fara á barnaverk þar sem má hafa hávaða og áhorfendur hika ekki við að lýsa yfir skoðunum sínum eða spyrja spurninga. Það er einskonar meðal við meðvirkni. En þannig stemming verður aðeins til með góðu handriti og skýrri leikstjórn sem setur leikinn og gleðina ofar öllu öðru. Endirinn á verkinu var síðan mjög ljúfsár, og voru áhorfendur skilin eftir með hjartnæman boðskap um mátt tilfinninga og náttúrunnar. Ég get sannarlega sagt að ég er komin með nýjan skilning á fyrirbærinu þoka, og mig langar ekkert smá að prófa að drekka mismunandi þokur með Huldu og Karli, og vona að þau haldi áfram að leita að hinu skrítna sem gerist bara í þoku, lenda í ævintýrum og leika sér, því eins og allir vita þá býr margt í þokunni.