Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Lík 410 almennra borgara hafa fundist í Bucha

04.04.2022 - 06:11
Journalists take pictures next to a mass grave in Bucha, in the outskirts of Kyiv, Ukraine, Sunday, April 3, 2022. (AP Photo/Rodrigo Abd)
 Mynd: AP - RÚV
Minnst 410 almennir borgarar hafa fundist látnir í bænum Bucha, skammt frá höfuðborg Úkraínu. Óttast er að mannfall sé mun meira. Rússar höfðu hersetu í borginni í fimm vikur.

Leiðtogar margra ríkja hafa fordæmt verknaðinn. Þar á meðal Liz Truss, utanríkisráðherra Bretlands, og Emmanuel Macron, forseti Frakklands, auk leiðtoga Evrópusambandsins sem leggja áherslu á að þeir brotlegu þurfi að axla ábyrgð. Frekari viðskiptaþvinganir eru boðaðar. Sameinuðu þjóðirnar segja að þetta veki spurningar um hvort stríðsglæpir hafi verið framdir.

Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, fór ófögrum orðum um hermenn Rússa í gærkvöld og kallaði þá morðingja og pyntara. Hann sagði að Rússar ætluðu að fremja þjóðarmorð á Úkraínumönnum. Hann ávarpaði rússneska ráðamenn og almenning og spurði hvað almennir borgarar í Bucha hefðu til sakar unnið gagnvart rússneska ríkinu.