Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Lesblinda hefur mikil áhrif á tíunda hvern nemanda

04.04.2022 - 17:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Einn af hverjum tíu segir að lesblinda hafi mikil eða mjög mikil áhrif á frammistöðu í námi. Því meiri sem lestrarörðugleikar hamla frammistöðu í námi því meiri eru kvíðatengd einkenni. Þetta er niðurstaða könnunar á tæplega ellefu þúsund nemendum á unglingastigi grunnskóla. 

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði könnunina fyrir Félag lesblindra á Íslandi og þar var sjónum beint að tengslum lesblindu og kvíða. Þátttakendur voru tæplega ellefu þúsund nemendur í áttunda, níunda og tíunda bekk grunnskóla. Meðal annars kemur fram að einn af hverjum tíu segir að lesblinda hafi mikil eða mjög mikil áhrif á frammistöðu í námi. Þar kemur jafnframt fram að því meiri sem lestrarörðugleikar hömluðu frammistöðu í námi því meiri voru kvíðatengd einkenni og eru þau tengsl mjög skýr í könnuninni.

Niðurstöðurnar koma ekki á óvart

Guðmundur Johnsen, formaður félags lesblindra á íslandi, segir niðurstöður könnunarinnar ekki koma sér á óvart. „Það er hins vegar alveg nauðsynlegt fyrir okkur að fá þetta staðfest vegna þess að það er ákveðin vantrú í samfélaginu á þetta vandamál. Það höfum við gert núna með þessari niðurstöðu frá Félagsvísindastofnun,“ segir Guðmundur. Hann bætir því við að þetta sé sorglegt en á sama tíma sé mjög gleðilegt að vera búinn að fá niðurstöðu til að hægt verði að ráðast á vandann. 

Guðmundur segir ýmislegt til ráða til að takast á við þetta vandamál og að alls kyns hjálpartæki séu til. Mikilvægt sé að fá kennslu án texta og best ef tækin verði notuð þannig að þau nýtist öllum.

Sóun á mannafli

Í könnuninni kemur einnig fram að stelpur og kynsegin nemendur finna frekar fyrir kvíðatengdum einkennum en strákar, níundu bekkingar eru kvíðnari en áttundu og tíundu bekkingar og nemendur sýna síður einkenni kvíða ef báðir foreldrar eru í fullu starfi en ef báðir foreldrar eru utan vinnumarkaðar. 

Þá valda lestrarörðugleikar skertu sjálfsmati sem síðan eykur kvíðatengd einkenni. Tilgátan sé einnig sú að lestrarörðugleikar valdi minna sjálfsöryggi, í gegnum lágt sjálfsmat. Þannig er manneskja sem er óánægð með sjálfa sig, einnig gjörn á að finnast hún vera einskis nýt og einskis virði. Guðmundur segir félagið vera með ákall til stjórnvalda. „Þetta er í raun og veru alveg ofboðsleg sóun á mannafli. Að setja fólk í gegnum skóla og mylja það niður og senda það út í þjóðfélagið brotið fólk það er í raun og veru það sem að þessi rannsókn er að segja okkur.“ 

urduro's picture
Urður Örlygsdóttir
johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV