Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Hárréttur hópur með hárrétt verk og á hárréttum tíma

Mynd: Þjóðleikhúsið / Þjóðleikhúsið

Hárréttur hópur með hárrétt verk og á hárréttum tíma

04.04.2022 - 09:35

Höfundar

Uppsetning leiksýningarinnar Ást og upplýsingar er flókin en tekst einkar vel, að mati leikhúsgagnrýnanda. Sýningin vekur áleitnar spurningar um kerfin sem maðurinn hefur byggt í kringum veruleika sinn.

Eva Halldóra Guðmundsdóttir skrifar:

Þegar ég var í fimmta bekk í grunnskóla átti ég bestu vinkonu sem ég eyddi nánast hverri einustu mínútu með. Við stofnuðum leynifélög sem höfðu það að markmiði að útiloka alla aðra frá okkar litla heimi sem var uppfullur af leyndarmálum, ævintýrum og ást. Við vorum í gengi sem rúllaði um hverfið og taggaði á veggi þá mikilvægu pólitísku yfirlýsingu, „E og H bestar! Satt og sannað“. Í mínum huga var ekkert jafn fullkomið og við. Við áttum heiminn í eitt augnablik. En þessi heimsyfirráð vörðu örskamma stund. Með kynþroskanum tók við veröld kynjapólitíkur, fordóma, peninga og ofbeldis sem ég hafði engan þroska til að skilja. Tilfinningar mínar fengu sífellt minna pláss og ég fann stöðugt meira fyrir því að þurfa að uppfylla kröfur annarra til að sanna eigið virði. Ég lærði að maður þarf að sanna sannleikann til að hann sé sannur.

Ég brá mér nýverið á leiksýninguna Ást og upplýsingar í Þjóðleikhúsinu. Verkið er eftir breska leikskáldið Caryl Churchill. Caryl er skemmtilegur höfundur og kemur manni stöðugt á óvart með því hvernig hún brýtur formið upp og hvert einasta handrit frá henni er gjörólíkt því sem á undan kom. Það er aldrei hægt að gera ráð fyrir línulegri frásögn eða hefðbundnum senum frá henni og þetta leikrit er engin undantekning. Verkið Ást og upplýsingar skrifar hún í köflum og í köflunum eru margar snarpar og stuttar senur. Hún gefur þau fyrirmæli að leikhópurinn megi raða senunum á þann máta sem þau vilja en kaflana þarf að sýna í þeirri röð sem hún skrifar þá. Í þessu handriti eru nánast engar sviðslýsingar né karakterar skrifaðir inn í handritið heldur er það hlutverk leikhópsins að finna út hver er að tala, við hvern og í hvaða aðstæðum. Þess vegna er þetta verk áskorun í uppsetningu sem ég myndi  telja að væri ekki á færi hvers sem er.

Að horfa á þetta verk er eins og að skipta á milli sjónvarpsstöðva mjög hratt, hoppa yfir „story“ á Instagram eða hámhorfa á myndbönd á Tik Tok. Þetta gerir það að verkum að það mæðir mikið á leikurunum. Þau þurfa að kynna fyrir okkur áhorfendum karaktera sem við í raun fáum samt aldrei að kynnast. Senurnar hafa engan aðdraganda heldur er líkt og þær byrji og endi í miðju atriði. Allir leikararnir í sýningunni draga man inn í nánast hverja einustu senu og leiða áhorfandann traustri hendi í gegnum þennan hafsjó af senum sem taka á tækni, tilfinningum, samskiptum, flóknum fræðikenningum og jú upplýsingum. Þessi hópur leikara er svo gífurlega sterkur og er magnað hvað þau flakka á milli senanna áreynslulaust og holdgervast í skýra en jafnframt marglaga karaktera án nokkurs fyrirvara. Sem dæmi má nefna þegar Björn Thors leikur mann sem ekki skilur sársaukann. Um leið og hann byrjaði að tala hugsaði ég um samræður við fólk sem ekki skilur þörf fyrir femínisma. Nína Dögg Filippusdóttir túlkar þunglynda konu af svo mikilli list að ég fann þreytu hennar liðast niður hrygginn. Og þegar Katrín Halldóra Sigurðardóttir bregður sér í hlutverk konu með alzheimers fann ég tárin spretta fram í augun. Allir leikararnir eru svo frábærir gamanleikarar og gefa húmorískum textanum einstakt líf með snilldarlegum tímasetningum sínum.

Listrænir stjórnendur sýningarinnar standa sig með stakri prýði. Búningar Evu Signýjar Berger eru virkilega flottir og leikmynd Daniels Angermayr mjög áhugaverð. Hvítar draperingarnar og hvíti háglansdúkurinn búa til heim fullkomleika á sviðinu sem er brotinn upp með videoverkum sem búa til epísk augnablik fyrir augað. Í byrjun eru búningarnir hvítir en verða smátt og smátt litríkari eftir því sem litróf manneskjanna og tenginga þeirra afhjúpast í verkinu. Una Þorleifsdóttir leikstjóri býr yfir dýpt sem ég held að margt listafólk þrái að geta stigið jafn auðveldlega inn í og hún gerir. Að geta leyst úr læðingi sýningu sem er jafn margbrotin og marglaga en jafnframt það aðgengileg að hún talar við hjartað í manni er magnað. Ég var svo ótrúlega ánægð með þessa uppsetningu og finnst mér þetta hafa verið hárréttur hópur með hárrétt verk og á hárréttum tíma!

Verkið fór með mig um víðan völl en það sem mér fannst skýrast var hvernig það tekur á andstæðum. Það sem við skiljum og það sem við finnum. Strúktúr og tilviljanir. Kerfi og kaos. Samkennd og einstaklingshyggja. Að það er til eitthvað sem er sannleikur þrátt fyrir að vera ekki sannað. Verkið dregur fram fáránleika mannlegrar tilveru og hversu margt af okkar raunveruleika getur verið tilgangslaust. Um leið og velsæld ríkir á einum stað dynja hörmungar yfir á öðrum. Á sömu sekúndu og lítið barn fæðist til allsnægta deyr annað við ömurlegar aðstæður. Manngerð kerfi sem í raun gera ekki ráð fyrir því að maðurinn fái að vera manneskja. Tungumálakerfi, kapítalisminn, stærðfræði, lýðræði og margt, margt fleira eru kerfi sem við búum til og gerum ráð fyrir að séu fullkomin. Reynum að hreyfa okkur innan þeirra eins og þeirra lögmál séu æðri og eigi að segja okkur fyrir verkum fremur en öfugt. Að við búum í heimi þar sem það eina sem við þurfum sé frábær rökfærsla eða geggjað klár vísindamaður sem sannar einhverja kenningu og þar séum við komin með endanlegt svar. Verkið ítrekar að þrátt fyrir allt sem við höfum skapað erum við í grunninn bara fólk sem þráir tengingar. Að nándin við annað fólk er það mikilvægasta sem við eigum. Fólk þráir ástina og að vera elskað. Manneskjan þráir að vera í leynifélagi með bestu vinkonu sinni og vera staðfest best þrátt fyrir allar rökfærslurnar fyrir ófullkomleika hennar.