Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Serbía: Endurkjör Vucics talið næsta öruggt

epa09862216 Incumbent Serbian President Aleksandar Vucic speaks during his pre-election rally in Belgrade, Serbia, 31 March 2022. Serbia will be holding general elections on 03 April 2022.  EPA-EFE/ANDREJ CUKIC
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Serbar kjósa sér forseta og þing í dag. Búist er við að niðurstaða kosninganna tryggi áframhaldandi völd miðhægriflokksins sem ráðið hefur ríkjum í Serbíu undanfarinn áratug. Innrás Rússa í Úkraínu varpar þó löngum skugga sínum á stjórnmál í landinu.

Líklegast þykir að Aleksandar Vucic verði endurkjörinn forseti en hann heitir landsmönnum áframhaldandi stöðugleika í skugga erfiðra ytri aðstæðna. Þar spilar kórónuveirufaraldurinn og stríðsógn vegna átakanna í Úkraínu stórt hlutverk.

„Þessar ógnir hafa skekið efnahag voldugri ríkja en Serbíu, en hér ríkir alger stöðugleiki og við ráðum við áskoranirnar,“ segir Vucic sem hefur setið að völdum í áratug. Hann lofar meðal annars hækkunum launa og bóta nái hann endurkjöri.

Vucic hefur fordæmt innrás Rússa í Úkraínu á alþjóðavettvangi en hefur haldið aftur af beitingu viðskiptaþvingana í þeirra garð. Það segja greinendur vera vegna þess hve hlýtt mörgum Serbum er í garð Rússlands.

Af sömu ástæðu hafa stjórnarstöðuflokkar látið eiga sig að gagnrýna Vuhic fyrir afstöðu sína. Það er talið geta komið þeim í koll á kjördag. 

Stjórnarflokkurinn, Serbneski framfaraflokkurinn, er talinn munu halda yfirburðastöðu sinni á þinginu en Serbar kjósa 250 þingmenn í dag. Aðeins fáir mánuðir eru síðan kannanir sýndu að stjórnarandstaðan bætti talsvert við fylgi sitt.

Nú telja greinendur að ekkert geti komið í veg fyrir sigur Vucics eða dregið úr þingstyrk flokks hans. Kjörstaðir voru opnaðir klukkan fimm og verður lokað klukkan sex síðdegis. Búist er við að fyrstu tölur birtist fljótlega eftir það.