Jón lýsti þeim hörmungum sem blöstu við honum í bænum, sem og þeim sögum sem bæjarbúar sögðu eftir að hafa haldið sig í kjöllurum húsa sinna í um fimm vikur á meðan átök geysuðu á svæðinu.
„Hér er mikið um húsarústir, hér eru brunnar vígvélar í hundraðatali og eins langt og augað eygir, sem lýsir best átökunum hér. Og hvarvetna eru lík almennra borgara, greinilega gangandi eða hjólandi. Hugsanlega hafa þeir verið að leita sér að nauðþurftum. Ef menn héldu sér ekki í kjöllurum húsa sinna þá stofnuðu þeir sér greinilega í lífshættu.“
Hann segir að töluvert af fólki hafi ekki haft tíma til að flýja bæinn áður en átökin hófust. Jón hefur hlustað á sögur fólksins í bænum, en hann segir frásagnir þeirra skelfilegar. Hann segist hafa hitt níræða konu sem hafði upplifað þrjár styrjaldir, en að hennar sögn væri þessi sú skelfilegasta.
„Þetta voru frásagnir af því hvernig menn lágu deyjandi á götum úti án þess að nágrannar þeirra gætu komið þeim til hjálpar vegna leyniskytta sem virðast hafa skotið á allt sem hreyfist. Líkt og þeir hafi verið í veiðitúr, eins og einn orðaði það. Móðir lýsti því í gengum tárin hvernig það var að horfa á lík sonar síns út um gluggann í fimm daga áður en hægt var að grafa hann í garðinum. Og þetta er bara hluti af hryllingssögum bæjarbúanna hér í Bucha. “
Frásögn Jóns í kvöldfréttum RÚV má finna í spilaranum hér að ofan.