Starfsmenn borgarinnar sinna nú vorverkum og eru í óða önn að klippa trjárunna og raka lauf. Einarsgarður er með elstu almenningsgörðum Reykjavíkur, í krikanum milli Laufásvegar og gömlu Hringbrautar.
„Upphaflega var hér gróðrarstöð sem Einar Helgason stýrði og var með hér frá 1899 til 1931. Seinna meir tók borgin að sér þetta svæði og gerði að almenningsgarði 1943,“ segir Þorsteinn Magni Björnsson, garðyrkjufræðingur hjá Reykjavíkurborg.
Einar ræktaði tré, sumarblóm, runna og matjurtir.
„Það héldu margir að það væri ekkert hægt að rækta hér á Íslandi. En það var nú algjörlega önnur raunin,“ segir Þorsteinn.
Það er kannski ekki hlýtt í veðri en örvæntið ekki því krókusarnir hafa stungið upp kollinum. Sömleiðis túlipanar.
Enn stendur eitt tré í garðinum sem Einar gróðursetti. Myndarlegur álmur stendur við gömlu gróðrarstöðina og breiðir úr sinni fallegu krónu.
„Mikið af gömlu trjánum í Reykjavík þau koma héðan, til dæmis í Þingholtunum og Vesturbænum,“ segir Þorsteinn.
Það eru ekki margir sem vita af Einarsgarði.
„Þetta er falin gersemi myndi ég segja. Það er mjög skjólsælt hérna og alveg skjól fyrir norðanáttinni og snýr alveg á móti suðri,“ segir Þorsteinn.