Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Á þá ósk heitasta að komast aftur heim til Úkraínu

Tugir flóttamanna voru fluttir í skyndi frá Ásbrú á Hótel Sögu vegna ofsahræðslu barna við flugvélagný frá Keflavíkurflugvelli. Ung kona á flótta sem kom til Íslands í gær frá borg í grennd við Kænugarð, með viðdvöl í Póllandi, þakkar Íslendingum hlýhuginn en vill komast heim aftur eins fljótt og auðið er.

Búið er að bæta aðbúnað á Hótel Sögu en nokkuð skorti á eldhúsaðstöðu og annað þegar flóttafólkið kom þangað. Katarina Khomiak dvelur tímabundið á Sögu eins og fjöldi landa hennar. Hún er frá borginni Zhytomyr sem er vestan við Kænugarð. Ákvörðunin um að flýja var erfið. Móðir hennar og amma urðu eftir í Póllandi í öruggu skjóli.

„Við búum í grennd við Kænugarð og þetta var mjög ógnvekjandi því við heyrðum stöðugan sprengjugný. Ástandið var alls ekki eins slæmt og í Mariopol og Karkiv og Tsjernihiev en þetta var samt skelfilegt ástand og við ákváðum að yfirgefa landið. Við söknum heimahaganna mjög og vonumst til að komast aftur heim eins fljótt og auðið er." „Hefurðu hug á að hefja nýtt líf í öðru landi eða viltu fara heim aftur við fyrsta tækifæri?" „Að sjálfsögðu vil ég fara aftur heim af því að ég á kærasta heima í Úkraínu og allir vinir mínir og líf mitt er þar."

 Íbúar í vesturbæ Reykjavíkur hafa sett upp fésbókarsíðu um aðstoð við nýju Vesturbæingana og hafa fært fólkinu fatnað og mat. Ekki er þó heimilt að fara inn á hótelið. Markús Már Efraim Sigurðsson er einn þeirra sem hefur aðstoðað  fólkið.

„Þetta er bara  svona samtakamáttur í hverfinu held ég að hjálpa nágrönnum okkar tímabundnu  Það eru komnir held ég 90 flóttamenn sem eru hér í tímabundnu úrræði hérna á hótel Sögu.  Í þessu tilviki höfum við bara sett upp lista eða skjal þar sem að flóttafólkið sem hér býr getur sett inn á skjalið það sem það vantar og það vantar kannski skó á stúlku í þessari stærð og þá getur einhver sem á slíkt, merkt við að hann komi með það og þá komið með það hingað þannig að það fari nú ekki bara allt að fyllast hérna í anddyrinu úr geymslunni hjá fólki sko."

Katarina Khomiak kveðst þakklát að vera örugg og umkringd góðu fólki en hún og hennar fólk vonist til að stríðinu ljúki fljótt og að þau komist aftur heim.

Ólöf Rún Skúladóttir
Fréttastofa RÚV