
Segir Rússa hafa samþykkt helstu sjónarmið Úkraínumanna
„Rússland hefur opinberlega svarað öllum sjónarmiðum [Úkraínu] jákvætt, utan málefna Krímskaga,“ segir Arakhamia. Þó liggi engin skrifleg staðfesting fyrir, rússnesku samningamennirnir hefðu munnlega fallist á sjónarmiðin.
Hann sagði sömuleiðis að Rússar hefðu sagt að þjóðaratkvæðagreiðsla um hlutleysi Úkraínu væri eina leiðin út úr átökunum. Aðspurður hvað gerðist samþykktu Úkraínumenn ekki þá stöðu landsins sagði hann að annað hvort brystu átök út að nýju eða að teknar yrðu upp friðarviðræður aftur.
Arakhamia sagði í samtali við úkraínskar sjónvarpsstöðvar að kæmi til fundar þeirra Volodymyrs Zelensky Úkraínuforseta og Vladimírs Pútín forseta Rússlands færi hann líkast til fram í Tyrklandi.
Recep Tayyip Erdogan forseti Tyrklands hefði boðið báðum samningsaðilum það í dag en dagsetning liggi þó ekki fyrir. Zelensky hefur iðulega kallað eftir fundi með Pútín frá því innrásin hófst 24. febrúar.
Arakhamia lét orð sín falla í kjölfar tilkynningar Úkraínumanna um að þeir hefðu náð svæðinu umhverfis Kyiv á sitt vald.