Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Grét í leigubílnum eftir gigg

Mynd: Saga Sigurðardóttir / Saga Garðars

Grét í leigubílnum eftir gigg

02.04.2022 - 09:00

Höfundar

„Mér fannst ótrúlegt að honum þætti ég svona ömurleg,“ segir grínistinn Saga Garðarsdóttir um eitt af sínum verstu augnablikum á sviðinu. Hún talar um ólíka áhorfendahópa og viðbrögð þeirra við uppistandi hennar.

Líkt og svo margir grínistar þá þekkir Saga Garðarsdóttir það á eigin raun að uppistönd geta gengið á afturfótunum. Hvort sem það endar í löðrungi eða framíkalli, getur verið áhætta að stíga á svið. Saga rifjar upp sín verstu augnablik á sviðinu. Helgina 22.-23. apríl verður hún ásamt Snjólaugu Lúðvíksdóttur með uppistandssýningu í Gamla bíói.

Enginn var að hlusta, að hún hélt  

Þrátt fyrir að hafa tekist stórkostlega vel til og slegið í gegn á uppistandi þá segist Saga miklu frekar muna eftir rigningardögunum. „Manneskjan er svo flink í að láta sér líða illa,“ segir hún í samtali við Lóu Björk Björnsdóttur í Lestinni á Rás 1. Það sem sé svo áhugavert við uppistand er að grínistinn stígur inn í alls kyns aðstæður og veit í raun aldrei við hverju má búast.  

„Ég á tvö virkilega vond móment og þau tengjast bæði, ótrúlegt en satt, svona karlakvöldum,“ segir Saga. Á tímabili fyrir tveimur árum var mikið verið að bóka Sögu undir þeim formerkjum að þetta væri í fyrsta skipti sem kona væri fengin til að koma og skemmta þeim. „Það er mjög gaman að það sé leitað til í mín í fyrsta sinn sem kona er fengin. En þá fær maður líka efasemdir strax og fer að spyrja: Ætli þeir vilji sjá mig?“  

Á einu slíku kvöldi hafi mikil ölvun verið í gangi á Hótel Sögu, einungis menn viðstaddir og málverkauppboði nýlokið. „Ég var að segja brandara og það var enginn að hlusta á mig, að ég hélt. Þangað til ég heyrði allt í einu: Þegiðu!“ Saga hafi verið ákveðin í að svara fyrir sig því oft getur hjálpað að jarða slík framíköll. Hún rauk út í sal í átt að þeim sem kallaði. „Nema svo þegar ég kem þangað þá stend ég augliti til auglitis við elsta mann sem ég hef séð gefa frá sér hljóð,“ segir hún. „Þá algjörlega féllust mér hendur, ég gat ekki farið að rífast við hann. Fannst ótrúlegt að honum þætti ég svona ömurleg.“  

En á leiðinni heim þegar Saga fór að gráta í leigubílnum hafi bílstjórinn huggað hana. „Þá hugsaði ég: Vá hvað það er til gott fólk líka.“ 

„Þetta hefði kannski mátt vera meira fyndið“ 

„En svo átti ég mjög slæmt gigg aftur fyrir karla,“ segir Saga sem bætir því þó við að hennar uppáhaldsáhorfendur séu karlahópar þó þeir geti verið mjög strembnir. Þá var fengin til að skemmta í stóru karlasamkvæmi og var þá einmitt fyrsta konan sem leitað var til. „Ég hafði undirbúið mig svolítið vel, var með smá svona dónalegt sett og sló í gegn,“ segir hún.  

Ári síðar hafi hún verið bókuð til að koma aftur. „En það sem gerðist í millitíðinni er að ég verð móðir. Allt í einu finnst mér minna gaman að segja dónabrandara og vildi tala um hvernig móðurhlutverkið hafði breytt mér,“ segir Saga sem hafði prófað settið í blönduðum hópum og gengið vel. „Nema það, svo kem ég þarna og hitti þessa menn aftur og segi þeim þessa hluti og það féll bara alls ekki í kramið. Þeir höfðu ekkert gaman af því sem ég var að segja.“ Eftir að Saga hafði lokið við uppistandið hitti hún manninn sem bókaði hana og bryddaði upp á því að það hefði nú gengið betur fyrir ári. Hann sagði þá við hana: „Já, þetta hefði kannski mátt vera fyndnara hjá þér.“  

„Afsakið hvað ég hljóma karlfyrirlitin“ 

Saga segist ekki oft lenda í því að fólk grípi fram í þegar hún sé að skemmta en það séu tvær tegundir framíkallara sem grínistar lendi í. „Ef þú ferð inn í hóp af körlum, afsakið hvað ég hljóma karlfyrirlitin, en þá vill það oft henta að það sé einhver í salnum sem finnst hann vera æðislega fyndinn og að hann eigi heima á sviðinu í staðinn fyrir mig,“ segir Saga. „En svo fer maður í konusal og þá fær maður framíköll sem eru meiri stuðningur,“ segir hún. „Þær eru að taka þátt og láta mig vita að ég sé á réttri leið.“ 

Hún segir einnig mikinn mun vera á því að halda eigin sýningu þar sem fólk borgi sig inn og vilji sjá hana, þá verði þessar aðstæður ekki til. „En svo er hitt sem er mjög algengt á Íslandi. Þá er verið að fá uppistandara í partý og þá mæti ég sem óboðinn gestur,“ segir Saga, gestur sem enginn hafi bókað nema einhver skemmtinefnd. Þá fari hún og reyni sitt besta til að slá í gegn og halda athyglinni. „Þá getur maður lent því að fólk vill ekki vera að fá mann eða vill sjálft vera að segja brandara.“ 

Rætt var við Sögu Garðarsdóttur í Lestinni á Rás 1. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér. 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Saga sofnaði á fatahrúgu á meðan foreldrarnir dönsuðu