Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Auglýst eftir störfum fyrir flóttafólk frá Úkraínu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vinnumálastofnun auglýsir um helgina eftir störfum fyrir flóttafólk frá Úkraínu. 40 komu til landsins á fimmtudag sem er mesti fjöldi sem hingað hefur komið á einum degi.

40 komu til landsins á fimmtudag

Fimm hundruð og sextíu flóttamenn frá Úkraínu hafa sótt um vernd hér frá því að innrásin hófst, 299 konur, 162 börn og 97 karlar. Gylfi Þór Þorsteinsson er aðgerðastjóri móttöku flóttafólks. 

„Það eru yfir fimmtíu flugferðir frá Póllandi hingað til lands í viku hverri og í sumum vélum koma nokkrir, öðrum enginn. En þetta er svona að meðaltali um 30 manns á dag sem hafa verið að koma og það er svona í hærri kantinum miðað við það sem við bjuggumst við. En til dæmis í gær voru þetta 40 manns sem komu. Það er erfitt að meta þetta en þetta er allavega ekki að minnka hjá okkur. “

Stöðugur straumur hingað til lands

Alþjóðflóttamannastofnununin áætlar nú að allt að fimm milljónir muni flýja, milljón fleiri en áður var talið. Þá segir stofnunin að 6,5 milljónir óbreyttra borgara séu á flótta innan landamæra Úkraínu. 

Einhverjir Úkraínumenn hafa þegar snúið aftur heim og flóttafólki til Póllands hefur fækkað. 

„Við höfum ekki fundið fyrir því ennþá en vonandi kemst nú fólkið aftur til síns heima sem fyrst. Við vitum það líka að Pólland er þétt setið. Það hafa fleiri, fleiri milljónir flúið þangað yfir og orðið erfitt að koma fólki þar fyrir. Þannig að Úkrínubúar eru farnir að leita til annarra landa en Póllands og jafnvel að yfirgefa Pólland út af því. Ef fólk er að fara aftur heim, þá er það  bara það allra besta í stöðunni ef það er hægt,“ segir Gylfi. 

Mörg stór verkefni framundan

Fólkið fer fyrst í úrræði á vegum Útlendingastofnunar, komist þau ekki inn hjá vinum og ættingjum. Þaðan fer það í svokölluð skjól, íbúðarhúsnæði þar sem það getur dvalið í 3-6 mánuði. Þá taka sveitarfélögin við sem útvega langtíma úrræði. Húsnæðið er eitt stærsta verkefnið framundan, en úr mörgu öðru þarf að leysa. 

„Þetta er stór og breiður hópur fólks sem hingað er kominn með mikla reynslu og margir góða menntun, þannig að Vinnumálastofnun er einmitt að auglýsa núna í blöðunum um helgina eftir vinnu fyrir fólkið.“

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV