Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Yfir 100 andlát tengd kórónuveirufaraldrinum

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
101 andlát tengt kórónuveirufaraldrinum hefur nú verið tilkynnt til Landlæknisembættisins. Þetta kemur fram á vefnum covid.is. Mjög hefur dregið úr smitum og í dag liggja 48 sjúklingar á Landspítalanum með COVID - 19. Tveir sjúklingar eru á gjörgæsludeild og er annar þeirra í öndunarvél. Nærri helmingur íbúa á Íslandi hefur nú greinst með staðfest smit.

Fyrsta andlátið af völdum COVID-19 hér á landi var ungur ástralskur ferðamaður sem hafði verið á ferðalagi um landið ásamt eiginkonu sinni.  Hann hafði leitað til Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Húsavík vegna alvarlegra veikinda og lést stuttu eftir komuna þangað.

Flest andlátin hafa verið í omíkrón-bylgjunni en á þessu ári hafa 64 andlát tengd kórónuveirufaraldrinum verið tilkynnt til Landlæknisembættisins. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, hefur sagt að þessi fjöldi sé afleiðing af mikilli útbreiðslu afbrigðisins.

Flest andlát tengd COVID-19 hafa verið meðal 70 ára og eldri. Árið 2020 voru 29 andlát tilkynnt og 2021 voru þau 8. 

Fram kom í nýlegum pistli Þórólfs að aðeins á tilkynna þau andlát sem læknar meta að COVID-19 hafi valdið, stuðlað að eða á einhvern hátt átt þátt í andlátinu. „Til að dauðsfall sé skilgreint vegna COVID-19 mega ekki líða meira en 28 dagar frá greiningu á COVID-19 og ekki á að vera tímabil algjörs bata af COVID-19 á milli veikinda og andláts.“

Tölur yfir fjölda smita í gær hafa ekki verið uppfærðar.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV