
Tíu hafa sagt upp hjá Eflingu frá því í febrúar
Breytingar eru í vændum í stjórn Eflingar eftir að Sólveig Anna Jónsdóttir var kjörin formaður í stjórnarkosningum í febrúar. Hún hafði sagt af sér sem formaður í október 2021 vegna þess sem hún sagði vera afdráttarlausa vantraustsyfirlýsingu á hendur sér frá starfsfólki Eflingar.
Kosningabaráttan fyrr á árinu var hörð og snerist að þó nokkru leyti um starfsfólkið á skrifstofu Eflingar.
„Ef að svo fer að ég og Baráttulistinn berum sigur úr býtum og að á skrifstofunni er fólk sem getur ekki hugsað sér að starfa með mér er það auðvitað þeirra að taka ákvörðun um það og einfaldlega fara annað“ sagði Sólveig í viðtali í Kastljósi þann 10. febrúar, fimm dögum fyrir stjórnarkosningarnar.
Nýkjörnir stjórnarmenn geta ekki tekið sæti fyrr en á aðalfundi Eflingar. Samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdastjóra verður fundurinn haldinn þann 8. apríl, eftir rúma viku, og verður auglýstur á morgun.