Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Segir bjart yfir þrátt fyrir mikla verðbólgu

30.03.2022 - 09:58
Mynd: Íslandsbanki / Íslandsbanki
Þrátt fyrir mikla verðbólgu þá er bjart yfir í efnahagsmálum að mati Bergþóru Baldursdóttur, hagfræðings hjá Íslandsbanka. Þó megi búast við því að verðbólga hækki meira áður en hún lækkar. Stríðið í Úkraínu og kórónuveirufaraldurinn hafi áhrif á innflutta verðbólgu, sem leiðir til hækkandi verðs á innfluttum vörum.

Aðgerðir Seðlabankans virkuðu ekki sem skildi

Bergþóra segir óvissuna vissulega mikla varðandi stríðið. „Ofan á það eru ennþá covid-áhrif sem er að hafa áhrif á þessa innfluttu verðbólgu. Við erum að gera ráð fyrir að verðbólga aukist núna á næstu mánuðum en við erum að vonast til að þeir þættir sem eru að gerast hér innanlands, eins og húsnæðisverðið, að það muni róast eða hækka hægar.“

Bergþóra segir að aðgerðir Seðlabankans til þess að grípa inn í á húsnæðismarkaði, meðal annars með stýrivaxtahækkunum og reglum um lántöku, hafi ekki virkað sem skildi. 

„Ástæðan fyrir því er að það er bara rosalega lítið framboð á markaðnum. Við erum að búast við auknu framboði þegar líða tekur á árið. Um leið og það gerist þá fara þessar aðgerðir Seðlabankans að hafa meiri áhrif. Þá dvínar eftirspurnin og framboð eykst. Við erum að vonast til að það gæti gerst svolítið hratt, að fasteignamarkaðurinn gæti róast nokkuð hratt og það gæti haft þau áhrif að verðbólga hjaðni.“

Tekur undir bjartsýnina

Bergþóra tekur undir þá bjartsýni sem birtist í þjóðhagsspá Hagstofunnar í gær. Þetta sé árið þar sem Ísland kemst út úr covid-kreppunni.

„Við erum að gera ráð fyrir að ferðaþjónustan muni ná vopnum sínum á ný og það verði töluvert af ferðamönnum í sumar. Atvinnuleysi er búið að hjaðna mjög hratt og mun líklega hjaðna enn meira á þessu ári. það er því svolítð bjart yfir en við erum með þessar hliðarverkanir sem er verðbólgan, meðal annars.“