Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Rússar segjast ætla að draga úr árásum við Kyiv

29.03.2022 - 12:46
epa09853180 Volunteers cover with sandbags the Monument to Princess Olga, Apostle Andrew, Cyril, and Methodius to protect them from Russian shelling, in the Ukrainian capital of Kyiv (Kiev), Ukraine, 27 March 2022. On 24 February, Russian troops had entered Ukrainian territory in what the Russian president declared a 'special military operation', resulting in fighting and destruction in the country, a huge flow of refugees, and multiple sanctions against Russia.  EPA-EFE/ATEF SAFADI
Minnisvarðar í Kænugarði eru varðir með sandpokum.  Mynd: EPA-EFE - EPA
Rússar ætla að draga verulega úr hernaðaraðgerðum við höfuðborg Úkraínu Kyiv, að því er aðstoðar-varnarmálaráðherra Rússlands, sagði í samtali við rússneska fjölmiðilinn Tass. Þá hefur AFP fréttaveitan eftir einum samningamanna Úkraínu að svo geti farið að forsetar Úkraínu og Rússlands hittist á fundi þegar viðræðum, sem nú standa yfir í Istanbúl í Tyrklandi, lýkur.

Aðalsamningamaður Úkraínu, David Arakhamia, segir að nægur árangur hafi náðst í viðræðum í Tyrklandi í dag til að forsetarnir geti tekið við og farið að ræða málin. Utanríkisráðherra Rússlands, Sergei Lavrov, lýsti því yfir í gær að slíkur fundur forsetanna væri ekki tímabær. 

Uppfært klukkan 13:46: Alexander Fomin, aðstoðar-varnarmálaráðherra Rússlands, segir að þar sem viðræður um samkomulag um hlutleysi Úkraínu og að þar verði ekki kjarnorkuvopn, hafi gengið vel hafi verið tekin ákvörðun um að minnka verulega hernaðaraðgerðir við Kyiv. Þá hefur AFP fréttaveitan eftir aðalsamningamanni Rússa, Vladimir Medinsky að skilyrði Úkraínumanna verði afhent Rússlandsforseta.  Þá staðfesti Medinsky einnig að Pútín gæti hitt Zelensky. Deiluaðilar séu nær friðarsamkomulagi.  

Rússar hafa verið með mikið herlið við höfuðborgina en hafa mætt mikilli andstöðu hers Úkraínu. Rússlandsher hafa valdið miklum skaða og mannfalli til dæmis í Irpin við höfuðborgina. 

Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, hvetur fulltrúa ríkjanna á fundinum í dag til að binda enda á hörmungarnar stríðsins. Allur heimurinn bíði eftir góðum fréttum af viðræðunum, lýsti hann yfir í morgun.

Abramovich á fundinum í dag

Úkraínsk stjórnvöld segja að um tuttugu þúsund manns hafi beðið bana í árásum Rússa. Þá er staðfest að yfir tíu milljónir hafa flúið heimili sín. Sendinefndirnar hittust síðast augliti til auglitis í Tyrklandi 10. mars. Rússneski auðjöfurinn Roman Abramovich, sem grunur leikur á að eitrað hafi verið fyrir á dögunum, tekur þátt í viðræðunum í dag.  

Úkraínumenn leggja áherslu á vopnahlé

Rússa hafa hingað til gert þær kröfur að Úkraína verði hlutlaust ríki, sem myndi þá þýða að stjórnvöld myndu ekki sækjast eftir inngöngu í NATO. Rússar vilja að Úkraínumenn viðurkenni formlega að Donetsk og Luhansk í austurhlutanum og Krímskagi séu ekki lengur hluti af Úkraínu. Hjá Úkraínumönnum er aftur á móti öll áherslan á vopnahlé og að bæta mannúðarástandið.

Hvetur erindreka til að þiggja ekki mat og drykk

Fregnir bárust af því í gær að mögulega hafi verið eitrað fyrir Abramovich og nokkrum fulltrúum Úkraínu í viðræðum í byrjun mánaðarins. Dmitry Peskov, talsmaður Pútíns, segir alrangt að það hafi verið eitrað fyrir einhverjum í sendinefndunum og að þessar fréttir séu hluti af upplýsingastríði. Stjórnvöld í Úkraínu hafa ekki viljað staðfesta neitt og ráðleggja fólki að fylgjast með opinberum upplýsingum. Utanríkisráðherra Úkraínu, Dmytro Kuleba, hvatti erindrekana til að fara varlega í Tyrklandi í dag og hvorki þiggja neitt að borða, né drekka og eins að reyna að forðast það alveg að snerta alla yfirborðsfleti á fundunum.