Getur ekki lýst hve særandi pistillinn var

Mynd: Aðsend / RÚV

Getur ekki lýst hve særandi pistillinn var

29.03.2022 - 09:54

Höfundar

„Að sjá þetta í dagblaði sem er dreift á landsvísu, ég á engin orð til að lýsa hvernig mér leið við að sjá þetta,“ segir Andie Sophia Fontaine, gjaldkeri samtakanna Trans Ísland. Morgunblaðið birti nýverið skoðanapistil þar sem farið var með transfóbísk ummæli og brugðust samtökin við með yfirlýsingu.

Samtökin Trans Ísland gagnrýndu um helgina fjölmiðla fyrir að birta ítrekað pistla þar sem minnihlutahópar eru smánaðir, undir því yfirskini að um sé að ræða skoðanir fólks. Andie Sophia Fontaine, gjaldkeri samtakanna og fréttastjóri hjá Reykjavík Grapevine, segir yfirlýsingu samtakanna biðla til fjölmiðla að huga betur að eigin ábyrgð þegar kemur að birtingu slíkra pistla.  

„Trans Ísland hefur enga löngun til að rökræða raunveruleika tilvistar okkar eða að hrekja þær staðhæfingar höfundarins sem samþykktar voru af ritstjórn og hleypt í prentun. Tilvist okkar er ekki álitamál og er ekki efni í rökræður.“ 

Þetta kemur fram í yfirlýsingu samtakanna Trans Ísland í kjölfar þess að í Morgunblaðinu birtist skoðanapistill uppfullur af staðreyndavillum og transfóbískum ummælum. „Það er mjög særandi að lesa svona en á sama tíma veit ég að langflestir Íslendingar styðja transfólk og okkar baráttu fyrir betra lífi og frelsi,“ segir Andie Sophia í samtali við Ingvar Þór Björnsson og Snærósu Sindradóttur í Morgunútvarpinu á Rás 2. „En á sama tíma, að sjá þetta í dagblaði sem er dreift á landsvísu, ég á engin orð til að lýsa hvernig mér leið við að sjá þetta.“ 

Dreifa hatri í yfirskini skoðunar  

Andie Sophia bendir þó á, líkt og fram kemur í yfirlýsingunni, að Morgunblaðið sé ekki eitt þegar kemur að birtingu skoðanapistla þar sem þolendur kynferðisofbeldis, hælisleitendur, innflytjendur, hinsegin fólk og konur almennt verði fyrir barðinu. Þar sé hatri og röngum upplýsingum dreift og pistlahöfundar skýli sér á bakvið þá staðhæfingu að um skoðun sé að ræða.  

„Ekki bara sem transkona heldur líka sem blaðakona þykir mér mjög vænt um þennan bransa. Mér finnst að þetta verði að breytast,“ segir Andie Sophia. „Við verðum að stöðva þetta, vera með einhvern standard á það sem fer í prentun. Hvort sem um ræðir frétt eða skoðun.“  

Við getum öll gert betur 

Að sögn Andie Sophiu væri frábært ef hinir stóru fjölmiðlar myndu stíga fastar til jarðar og neita að birta svo særandi pistla. Hún segir miðlana þurfa að spyrja sig að tvennu þegar kemur að birtingu skoðanapistla: „Hjálpar þetta umræðunni? Í þessu málefni sem verið er að fjalla um. Og, er þetta að smána og ýta undir hatur gegn minnihlutahópum sem glíma nú þegar við nóg,“ segir hún. „Ég held að þetta sé mjög einfalt mál, sem bæði trans- og blaðakona held ég að við getum öll gert betur.“ 

Engin viðbrögð hafi borist frá Morgunblaðinu en Andie segir markmið samtakanna Trans Ísland vera stærra: „Að hvetja blaðamenn, útgefendur og ritstjóra að hugsa betur um okkar ábyrgð í þessum bransa,“ segir hún. Fjölmiðlafólk þurfi að huga að því hvernig hægt sé að búa til betra samfélag með umræðu þar sem hægt sé að vera ósammála en á sama tíma bera virðingu hvert fyrir öðru.  

„Viðbrögð við okkar yfirlýsingu hefur verið yfirþyrmandi jákvæð,“ segir Andie Sophia en það kemur henni ekki á óvart hve sterklega sís-kynja einstaklingar brugðust við pistlinum og tóku vel í yfirlýsingu samtakanna. „Mín reynsla er sú að langflest sís-fólk styður okkar mál,“ segir hún en bætir við að það megi alltaf gera aðeins betur.  

Rætt var við Andie Sophiu Fontaine í Morgunútvarpinu á Rás 2. Hlusta má á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan. 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Byrjaði að efast um kyn sitt 6 ára