
Landspítali færður af neyðarstigi niður á hættustig
Forstöðukonur hjá Grund og Skjóli segja þó að staðan sé að batna. Inflúensan hefur ekki borist inn á heimilin enn sem komið er.
Sóttvarnalæknir sagði í síðustu viku að hætta væri á því að stór inflúensufaraldur taki við nú þegar kórónuveirufaraldurinn er á niðurleið.
Sigríður Sigurðardóttir, sviðstjóri hjá Grundar heimilunum, segir að ástandið á heimilunum sé búið að vera mjög erfitt í langan tíma. Hátt í 80 prósent heimilsmanna og starfsmanna á Grund hafi smitast síðustu mánuði. „Það var fyrst í síðustu viku að ekkert nýtt smit greindist á Grund en annars erum við búin að vera með smit þar síðan í lok nóvember á síðasta ári. Mörk er svona aðeins seinna í kúrfunni en Grund en þar greindust í síðustu viku 18 heimilismenn.“
Sigríður segir að sjúkdómurinn haf lagst mjög mishart á fólk. Sumir hafi verið alveg einkennalausir á meðan aðrir hafa veikst illa. Hún segir að þau séu nú loks að sjá ljósið í enda ganganna og vonast til að það versta sé yfirstaðið. „Við erum ekki með nein staðfest inflúensu tilfelli enn þá en ég veit um einhverja stöku starfsmenn sem hafa fengið inflúensu,“ segir Sigríður að lokum.
Íris Dögg Guðjónsdóttir forstöðumaður hjúkrunar á hjúkrunarheimilinu Skjóli segir að svipað hafi verið uppi á teningnum þar. Febrúar hafi verið erfiðasti mánuðurinn frá upphafi faraldursins. Yfir áttatíu prósent heimilsmanna hafi greinst þann mánuðinn en að staðan á heimilinu sé nú góð, enda fáir eftir að smitast. Hún segir að inflúensan sé farin að herja á nokkra starfsmenn en ekki heimilismenn.