Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Bindur vonir við góða kjarasamninga

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Heilbrigðisráðherra tekur undir með forstjóra Landspítalans að engan tíma megi missa við að bæta stöðu heilbrigðiskerfisins. Fjölga þurfi legu- og hjúkrunarrýmum og efla forvarnir samhliða uppbyggingu nýs spítala.

Í skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey segir að þörf verði fyrir helmingi fleiri legurými árið 2040 en gert er ráð fyrir í nýjum Landspítala að óbreyttu. Þar spilar öldrun þjóðarinnar stóran þátt en einnig fólksfjölgun. Fram kemur að grípa þurfi til stórtækra aðgerða til að bregðast við stöðu heilbrigðiskerfisins. Forstjóri Landspítalans segir meðal annars að nýta verði þær byggingar við Hringbraut sem fyrir eru, en ljóst er að sumar eru illa farnar, meðal annars vegna myglu.

„Við verðum að skoða þessar gömlu byggingar og byggja þær upp. Ég nefni krabbameinsdeildina, ég nefni geðdeildina, húsið þar og ég held að við getum ekkert beðið með það. Forstjórinn dró þetta bara mjög vel fram í viðtali við ykkur,“ segir Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Willum segir að ásamt framtíðaráformum um uppbyggingu hjúkrunarheimila þurfi að efla þjónustu við þá sem geti búið lengur heima og efla forvarnir í öllum aldurshópum. Í skýrslunni er áætlað að þörf á vinnuafli muni aukast um allt að 36% til 2040. Willum bendir að á starfshópur vinni að lausnum á núverandi mönnunarvanda. Þar spili inn í kjör og starfsaðstæður og það síðarnefnda muni lagast með nýjum spítala.

„En svo verðum við að auðvitað að treysta á góða kjarasamninga, samhliða aðbúnaðnum til þess að við eigum svo mikið undir því að þessar stéttir, að þeim líði vel svo að þau geti þjónustað okkur sem best,“ segir Willum Þór.

Þá segir ráðherra að skilgreina þurfi vel starfsemi spítalans og auka samvinnu við aðrar heilbrigðisstofnanir og einkageirann. Ekki sé nógu gott að bygging spítalans hafi tekið svona langan tíma. „Við berum ábyrgð þar pólitíkin, hefðum mátt gera þetta fyrr en svona er staðan,“ segir Willum Þór.