Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Talið líklegt að stjórn Abela á Möltu haldi velli

Mynd með færslu
 Mynd: NN - Facebook
Robert Abela forsætisráðherra Möltu vonast til að endurnýja umboð sitt í þingkosningum sem háðar voru í gær. Yfirferð atkvæðaseðla hófst í nótt og rafræn talning með morgninum. Búist er við að fyrstu tölur liggi fyrir á næstu klukkustundum.

Skoðanakannanir hafa sýnt nokkuð öruggt fylgi ríkisstjórnar Abela sem tók við formennsku í Verkamannaflokknum og forsætisráðherrastólnum í kjölfar afsagnar Josephs Muscats snemma árs 2020.

Afsögn hans var í skugga spillingarmála tengdum morði rannsóknarblaðakonunnar Daphne Caruana Galizia.

Opinber rannsókn gerð á síðasta ári leiddi í ljós að á tímum Muscats hafði myndast einhvers konar hefð fyrir refsileysi á Möltu. Það hafi orðið til þess að andstæðingar Galizia töldu sig óhikað geta losað sig við hana. Málið vakti heimsathygli á sínum tíma.

Greinendur telja að heldur falli á gleði Abela yfir sigri með lélegri kjörsókn en Maltverjar eru þekktir fyrir góða kosningaþátttöku. Undanfarin tuttugu ár hafa að meðaltali 92 af hundraði kjósenda mætt á kjörstað en talið er að hlutfallið fari niður í 85,5% nú.

Um 355 þúsund eru á kjörskrá á Möltu en áhuginn er jafnvel minni en fyrirfram hafði verið talið. Þó mega 16 og 17 ára Maltverjar nú kjósa til þings í fyrsta sinn.

Kjósendur hafa kvartað undan litleysi í kosningabaráttunni, enn eru fjöldatakmarkanir í gildi vegna kórónuveirufaraldursins auk þess sem innrás Rússa í Úkraínu kastar skugga sínum alla leið í Miðjarðarhafið.

Orðspor Verkamannaflokksins er líka litað af þeirri spillingu sem upp komst um við rannsóknina á Caruana Galizia. Það virðist þó ekki duga helsta andstæðingnum, Þjóðernisflokknum, til sigurs. 

Abela hefur á valdatíð sinni lagt sig fram um að bæta stjórnarfar og auka á frelsi fjölmiðla á Möltu. Fjölskylda Caruana Galizia hefur þó gagnrýnt hann fyrir að hafa ekki gengið nógu langt í þeim efnum.