Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Ætla ekki að verða við kröfum Írana

27.03.2022 - 10:16
epa09852385 Robert Malley, United States Special Envoy for Iran speaks during the Plenary Session of the final day of Doha Forum at Sheraton Grand Doha Resort & Convention Hotel in Doha, Qatar, 27 March 2022.  EPA-EFE/NOUSHAD THEKKAYIL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandaríkin ætla ekki að aflétta refsiaðgerðum sem snúa að íranska byltingarverðinum þótt samkomulag náist um nýjan kjarnorkusamning. Þetta sagði Robert Malley, sérstakur erindreki Bandaríkjanna í Íran, í morgun.

 

Viðræður um hinn nýja kjarnorkusamning eru sagðar á lokametrunum. Josep Borrell, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, sagði í gær að hann yrði klár innan skamms. Íransstjórn hefur krafist þess að Bandaríkin taki byltingarvörðinn af lista sínum yfir hryðjuverkasamtök áður en nokkurs konar samkomulag er undirritað. Ekki er útlit fyrir að Bandaríkjamenn verði við þessari kröfu.  

Byltingarvörðurinn var settur á listann vegna stuðnings Írana við stjórn Assads Sýrlandsforseta, Húta í Jemen og líbönsku Hezbollah-samtakanna.

Sayyid Kamal Kharrazi, fyrrverandi utanríkisráðherra Írans og nú ráðgjafi æðstaklerks, sagði alveg skýrt að fjarlægja þurfi byltingarvörðinn af hryðjuverkalistanum. Samkomulag sé í nánd en það sé háð því hvað Bandaríkin gera.

Viðræður um framtíð og framkvæmd kjarnorkusamningsins frá 2015 hafa staðið yfir frá því í nóvember síðastliðnum. Með samkomulaginu frá 2015 var ákveðið að Íranar hættu að auðga úran og veittu eftirlitsmönnum Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar aðgang að kjarnorkuverum sínum.

Bandaríkjamenn koma óbeint að viðræðunum en þeir sögðu sig frá samningnum í forsetatíð Donalds Trump árið 2018. Ári síðar bætti Trump byltingarverðinum á lista Bandaríkjanna yfir hryðjuverkasamtök.

 

Þórgnýr Einar Albertsson