Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Óttast að 300 hafi látist í árás á leikhús í Mariupol

Mynd: EPA-EFE / MAXAR TECHNOLOGIES
Að minnsta kosti 300 fórust í loftárás á leikhús í borginni Mariupol 16. mars að því er yfirvöld í borginni segja nú. Mikill fjöldi almennra borgara hafði leitað skjóls í leikhúsinu eftir linnulausar árásir rússneska hersins á borgina. Hafnarborgin Mariupol hefur verið í herkví Rússa frá því á fyrstu dögum innrásar þeirra í Úkraínu fyrir mánuði.

Innrásarliðið hefur látið sprengjum, flugskeytum og stórskotahríð rigna yfir borgina og engu hlíft hvorki íbúðahverfum, sjúkrahúsum né nokkru öðru. Fjöldi íbúa leitaði skjóls í leikhúsi í borginni og málaði merkingar á jörðina um að þarna væru börn. 

Gerðu árásir þrátt fyrir merkingar

Það breytti engu um að rússneski flugherinn gerði loftárás á leikhúsið í síðustu viku. Hundruð grófust undir rústunum en í fyrstu var ekki vitað hvort einhver hefði látið lífið því skipulagt sjúkra- og slökkviliðsstarf var í molum vegna árásanna og björgunarstörf afar erfið og óskipulögð vegna áframhaldandi stórskotaregns rússneska hersins. Tölur um mannfall voru fyrst birtar í dag og þær eru skelfilegar, að minnsta kosti 300 hafi látið lífið. Sagt er að 1300 manns hafi verið í leikhúsinu þegar Rússar vörpuðu sprengjum á það.

Vill að Pútín svari til saka

Volodymyr Vyatrovych, úkraínskur þingmaður segir þetta vera stríðsglæp, einn af mörgum sem Rússland og Vladimír Pútín beri ábyrgð á. Hann vill að Pútín verði látinn svara til saka fyrir stríðsglæpi í Mariupol, Kherniv og Kharkiv og víðar, þúsundir úkraínskra kvenna og barna hafi fallið í valinn, skotin til bana eða hafi fallið fyrir ólöglegum vopnum.

Enn árásir á Mariupol

Sprengjum heldur áfram að rigna yfir Mariupol þó að borgin sé nánast rústir einar. Flóttmannahjálp og Mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna segja aðstæður í borginni skelfilegar. Tæplega hálf milljón bjó í Mariupol fyrir innrás Rússa en talið er að þar séu eftir um 100 þúsund manns.

Er í mun að ná borginni

Hernaðarsérfræðingar segja að Rússum sé í mun að ná borginni svo þeir ráði samfelldu landssvæði á ströndum Svartahafs frá Krím-skaga og austur til landamæra Rússlands. Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti segir að umsátur Rússa um Mariupol og gegndarlausar árásir þeirra á borgina verði skráð á spjöld sögunnar sem stríðsglæpur og grimmdarverk sem minnst verði um aldir.