Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Hætta á stórum inflúensufaraldri þegar covid sleppir

25.03.2022 - 07:38
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Hætta er á að stór inflúensufaraldur taki við nú þegar kórónuveirufaraldurinn er á niðurleið. Sóttvarnalæknir hvetur fólk með undirliggjandi sjúkdóma til að fá bólusetningu við flensunni.

Inflúensufaraldurinn rétt að byrja

Greindum kórónuveirusmitum fer fækkandi og álagið á heilbrigðiskerfið hefur minnkað. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir ljóst að faraldurinn sé á niðurleið. Aftur á móti hefur inflúensugreiningum fjölgað töluvert á undanförnum vikum.

„Það er að gerast núna sem ég hef bent á áður að gæti gerst, að við fengjum stóran inflúensufaraldur. Við vitum svo sem ekki hversu stór hann verður eða alvarlegur, af því við erum bara rétt í byrjun,“ segir Þórólfur.

Samkomutakmarkanir og sóttvarnareglur sem settar voru til að stemma stigu við kórónuveirufaraldrinum höfðu þau áhrif að ýmsar árvissar umgangspestir náðu ekki að skjóta rótum.

„Þannig að við getum búist við töluverðri útbreiðslu núna af því að inflúensan hefur ekki verið að ganga síðustu tvö ár. Þá er ónæmið miklu lélegra nú en oft áður,“ segir Þórólfur.

Mikilvægt að koma í veg fyrir alvarleg veikindi

Hann hvetur fólk til að fara í bólusetningu. „Sérstaklega þá sem eru með undirliggjandi vandamál,“ segir Þórólfur.

„Við höfum líka verið að hvetja lækna til að meðhöndla fólk sem er með undirliggjandi vandamál eins fljótt og hægt er þegar það veikist. Það klárlega kemur í veg fyrir alvarleg veikindi.“