Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Forsetahjónin sýndu listræna hæfileika á Þórshöfn

Mynd: Sölvi Andrason / RÚV
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og kona hans Elíza Reed eru nú í tveggja daga opinberri heimsókn í Langanesbyggð og Vopnafjarðarhreppi. 

Fyrsta opinbera heimsóknin í langan tíma

Þetta er fyrsta opinbera heimsókn forsetahjónanna frá því í fyrravor. Ferðin hófst með heimsókn til Þórshafnar þar sem Guðni og Elíza heimsóttu meðal annars íbúa á dvalarheimilinu Nausti. Þau fóru síðan í félagsheimilið Þórsver og snæddu hádegisverð með nemendum Grunnskólans á Þórshöfn sem sýndu þeim síðan skólann. Í skólanum voru forsetahjónin beðin um að mála vatnslitamyndir af vitum sem eru í sveitarfélaginu.

„Þetta er svona abstrakt útgáfa að Langanesvita og ég leyfi sköpunargleðinni að njóta sín og ég bið fólk að taka viljann fyrir verkið,“ segir Guðni.

Hann segist ekki oft vera beðinn um að mála. „Það kemur ekki oft fyrir nei, kannski sér fólk hvers vegna.“

Eliza var beðin um að teikna Digranesvita. „Mér mér finnst það nú reyndar miklu erfiðara heldur en það sem forsetinn er með.“

Anna Þorbjörg Jónasdóttir