Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fimm yfir meðallagi fersk á föstudegi

Mynd með færslu
 Mynd: Beabadoobee - Talk

Fimm yfir meðallagi fersk á föstudegi

25.03.2022 - 13:20

Höfundar

Það er betri blandan sem boðið er upp á þennan nágráa föstudag í Fimmunni og smellt á fóninn dansvænum djassi og rugluðu rokki. Lúðraveitarstelpan Emma-Jean Thackray er fyrst á svið en svo koma þýsku Jazzanova og síðan eru það fulltrúar yngri kynslóðarinnar í rokki Soccer Mommy, Beabadoobee og Fontaines D.C. sem sturla mannskapinn.

Emma-Jean Thackray, Black Science Orchestra - Venus

Það er djassgeggjarinn Emma-Jean Thackray frá Leeds sem kemur öllum hresssum lúðrasveitakrökkum út á gólfið í lagi sínu Venus. Lagið vinnur hún ásamt hús- og diskóplötusnúðnum Ashlee Beedle sem kallar sig Black Science Orchestra og átti nokkra dansgólfssmelli á tíunda áratugnum.


Jazzanova, DJ Amir, Re.decay - Saturday Night Special

Þýsku lúðrasveitagaurarnir í Jazzanova eiga líka rætur í nýbylgudjassi og á dansgólfum tíunda áratugsins auk þess að hafa frá árinu 2000 sent frá sér nokkrar plötur. Lagið þeirra Saturday Night Special stendur svo sannarlega undir nafni í endurhljóðblöndum DJ Amir og Re.decay og er til í þó nokkrum öðrum útgáfum á streymisveitum.


Soccer Mommy - Shotgun

Shotgun er nýjasta lag Soccer Mommy frá Nashville í Tennessee og er að sigra rokkunnendur um allan heim. Lagið er tekið af væntanlegri plötu Soffíu Regínu Allisonsdóttur - Sometimes, Forever sem kemur út í sumar.


Beabadoobee - Talk

Tónlistarkonan Beatrice Laus eða Beabadoobee hefur verið með þeim efnilegri undanfarin ár og sankað að sér alls konar útnefningum til verðlauna í Englandi sem hafa undirstrikað það. Í sumar tekur hún vonandi skrefið til fulls en þá kemur út plata hennar Beatopia sem inniheldur rokkarann Talk.


Fontaines D.C. - Skinty Fia

Dáðadrengirnir frá Dublin Fontains D.C. hafa sent frá sér þriðja lagið og titillagið af plötu sinni Skinty Fia sem kemur út eftir mánuð. Skinty Fia er að sögn sveitarinnar ævafornt írskt blótsyrði sem sem þýðir bölvun hjartarins.


Fimman á Spottanum