
Ætla að draga úr verslun með rússneska orku
Með samkomulaginu skuldbinda Bandaríkin og önnur ríki sem framleiða jarðgas sig til þess að auka verulega útflutning á gasi til Evrópusambandsríkja. Alls stendur til að selja 15 milljörðum rúmmetra meira á árinu en gert var ráð fyrir áður en samkomulagið var samþykkt og búast má við enn meiri aukningu í framhaldinu.
Samhliða því var samþykkt að reyna eftir fremsta megni að takmarka útblástur gasiðnaðarins.
Úkraínumenn hafa kallað eftir því að ríki heims hætti að kaupa rússneska olíu og gas vegna innrásar rússneska hersins í Úkraínu. Fjöldi ríkja hefur þegar beitt Rússa umfangsmiklum refsiaðgerðum en þar sem Evrópa reiðir sig að miklu leyti á rússneskt gas hafa orkumálin reynst erfið.
Joe Biden Bandaríkjaforseti tjáði sig um samkomulagið við ESB á fréttamannafundi með Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, í Brussel í dag. Hann sagði Pútín Rússlandsforseta nýta orkuauðlindina til að fjármagna stríðsrekstur og kúga nágrannaríkin.
Biden sagðist átta sig á því að það sé erfitt að hætta að kaupa rússneskt gas en það sé bæði siðferðislega rétt og bæti hernaðarstöðu Evrópusambandsins. Þá hafi Bandaríkin og ESB einnig stigið stærri skref í að miðla upplýsingum sín á milli.