Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Tjsekhov og Murakami í rauðum Saab

Mynd: Bíó Paradís / Bíó Paradís

Tjsekhov og Murakami í rauðum Saab

23.03.2022 - 17:00

Höfundar

„Hér er á ferðinni einstakur sagnamaður sem segir tilvistarlega og harmræna sögu fólks á hátt sem er fullur vonar og leikgleði,“ segir Gunnar Ragnarsson, kvikmyndarýnir Lestarinnar um japönsku kvikmyndina Drive My Car eftir Ryûsuke Hamaguchi.

Gunnar Ragnarsson skrifar:

Japanska kvikmyndin Drive My Car eftir leikstjórann Ryûsuke Hamaguchi var frumsýnd hér á landi á RIFF síðastliðið haust. Þá hafði myndin unnið til verðlauna á kvikmyndahátíðinni í Cannes (fyrir besta handrit m.a.) en engan gat órað fyrir velgengninni sem beið, sérstaklega vestanhafs. Hróður hennar nær hámarki á Óskarsverðlaununum n.k. sunnudag en hún er tilnefnd sem besta erlenda myndin, besta handrit, besta leikstjórn og sem besta kvikmyndin. Óhætt er að segja að hún sé vel að öllu lofinu komin.

Seiðandi fagurfræði og frásagnarmáti

Snilld Drive My Car felst ekki síst í því hvað hún nær að vera margslungin og einföld og tær í senn. Fagurfræðilega er hún framúrskarandi – sambland fallegrar en látlausrar myndatöku og klippingar, sem finnur ávallt réttan takt, býr til seiðandi galdur. Frásagnarmátanum mætti lýsa sem meitluðum og ekónómískum sem er ögn írónískt fyrir þriggja klukkustunda kvikmynd að vera. Hún leyfir sér útúrdúra (heimsóknin til dramatúrgsins og heyrnarlausu leikkonunnar) og 45 mínútna formála um undanfara fléttunnar – sem greinir frá ástarþríhyrningi aðalpersónunnar, eiginkonu hans og ungs leikara – en verkið og söguheimurinn væri mun snauðari án þessara kafla.

Galdur and-dramatíska melódramans

Sagan byggir á samnefndri smásögu Haruki Murakami úr smásagnasafni hans Karlar án kvenna frá árinu 2014. Aðalpersónan er leikari og leikstjóri sem stýrir fjöltyngdri uppsetningu á Vanja frænda eftir Anton Tjsekhov fyrir listahátíðina í Híróshíma, tveimur árum eftir andlát konu sinnar. Í titilhlutverkið ræður hann unga sjónvarpsþáttastjörnu þrátt fyrir að Vanja eigi að vera 47 ára gamall og flestir búist við því að hann muni túlka söguhetjuna sjálfur, en ungstirnið er sá sami og hélt við konu hans. Leikstjórinn kemur keyrandi til Híróshíma á íðilfögrum og sígildum rauðum Saab-bíl en fær þær fréttir við komu frá stjórnendum hátíðarinnar að honum sé óheimilt að keyra sjálfur á meðan uppsetningunni stendur vegna tryggingamála. Honum er úthlutaður bílstjóri, rúmlega tvítug kona, og milli þeirra myndast hægt og bítandi trúnaðarsamband.

Textatengsl og hliðstæður dýpka

Dvalarstaður leikstjórans er á eyju í klukkutíma fjarlægð frá leikhúsinu, en það gerir honum kleift að hlusta á snældu þar sem leiktexti Vanja frænda er fluttur af rödd fráfallinnar konu sinnar. Þessi aðferð nýtist honum til leggja textann á minnið og sökkva í flæði verksins. Notkunin á og textatengsl myndarinnar við texta rússneska leikskáldsins er mögnuð. Orð Tjsekhovs bergmála um allt gangverkið, í dáleiðandi bílferðunum og við æfingar og sýningar á verkinu, og draga fram hliðstæður í lífi og aðstæðum persónanna við verkið sjálft en tekur um leið á sig margræðar táknrænar merkingar. Áherslur og leikstjórn aðalpersónunnar á leikritinu segir líka ýmislegt um kvikmyndina sjálfa. Hann hamrar á því við fjöltyngd leikaralið sín að lesa einfaldlega textann án nokkurra blæbrigða (en leikurinn fer m.a. fram á japönsku, kóresku, kóresku táknmáli og mandarín og leikararnir skilja því oftast ekki tungumál hver annars). Síðar muni læðast að þeim tilfinning og sannleikur í senunum. Þetta rímar gjarnan við leikinn í myndinni sjálfri – viss atriði einkennast af löngum samtölum sem eru flutt án mikilla tilþrifa. Þetta er t.a.m. áberandi í trúnaðarsamtölum leikstjórans og bílstjórans – en þau voru eina umkvörtunarefni mitt eftir fyrsta áhorf, þar sem mér þótti óeðlilegt hvernig játningar þeirra streymdu fram linnulaust og samband þeirra varð ögn sykursætt fyrir söguna. Við seinni umgang rann þó upp fyrir mér hvaða kvikmyndagrein myndin fellur undir – melódramað – svik, kynlíf, dauði og leitin að lífsfyllingu eru alltumlykjandi – allar persónur þrungnar harmi og dramatík en eru jafn fallegar og Jane Wyman og Rock Hudson hjá Douglas Sirk forðum daga. Framsetning melódramasins er þó and-dramatísk, kallast jafnvel á við brechtíska útfærslu Fassbinders á greininni, og gerir það í samtali við einn helsta naturalista leikbókmenntana.

„Settu þetta í kassettutækið“

En hér hef ég gleymt í einum afmörkuðum anga myndarinnar og viðurkenni fúslega leikhúsbíóblæti mitt - Opening Night (1977, John Cassavetes), Vanya on 42nd Street (1994, Louis Malle), Dogville (2003, Lars Von Trier) verandi dýrðardæmi, en Drive My Car er hægt að njóta frá mörgum sjónarhornum. Einnig ber að minnast á aðra kvikmynd eftir leikstjórann Hamaguchi, Wheel of Fortune and Fantasy – Hjól óra og gæfu, sem kom líka út á liðnu ári og er sýnd á Stockfish-hátíðinni í Bíó Paradís næstu helgi. Hér er á ferðinni einstakur sagnamaður sem segir tilvistarlega og harmræna sögu fólks á hátt sem er fullur vonar og leikgleði. Sjáið Drive My Car – beep beep beep beep yeah!