Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Iceland Airwaves snýr aftur eftir 2ja ára covid-hlé

23.03.2022 - 17:45
Tónlistarkonan gugusar kemur fram á Iceland Airwaves í nóvember. - Mynd: RÚV / RÚV
Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves snýr aftur í haust eftir tveggja ára hlé. Í dag var tilkynnt um fjórtán tónlistarmenn og hljómsveitir sem spila á hátíðinni. Viðburðarstjóri segir Iceland Airwaves skipta miklu máli fyrir tónlistarmenn.

Iceland Airwaves var hvorki haldin í fyrra né hitteðfyrra ef frá eru taldir streymisviðburðirnir Live from Reykjavík. Hún verður haldin 3. til 5. nóvember í ár. Sindri Ástmarsson viðburðarstjóri segir tugi tónlistarmanna koma fram á hátíðinni.

„Við eigum eftir að ákveða endanlega tölu. Við ákváðum bara að tilkynna fyrstu fjórtán atriðin núna í morgun. Við búumst við að tilkynna fleiri í apríl og maí. En þetta eru nokkrir tugir hljómsveita, bæði erlendar og innlendar,“ segir Sindri.

Hátíðin íslensku tónlistarfólki mikilvæg

„Já, svo sannarlega. Iceland Airwaves er líklega mikilvægasta hátíðin fyrir íslenskt tónlistarfólk því á hana kemur bransafólk alls staðar úr heiminum. Það kemur sérstaklega á hátíðina til þess að sjá íslenskar hljómsveitir og erlendar. Flestar þessar erlendur hljómsveitir sem koma til landsins eru á mikilli og hraðri uppleið og draga mikið af fjölmiðlafólki og bransafólki með sér. Íslenskt tónlistarfólk nýtur góðs af því, svo sannarlega,“ segir Sindri.

Tilkynnt var um fjórtán tónlistarmenn og hljómsveitir í dag. Meðal þeirra eru breska tónlistarkonan Arlo Parks sem átti að koma fram í fyrra en ekki var unnt að halda hátíðina þá. Þá kemur hljómsveitin Metromony frá Kanada fram á hátíðinni í nóvember en einnig var fyrirhugað að hún kæmi fram í fyrra.

 • Amyl & the Sniffers
 • Arlo Parks
 • Árný Margrét
 • Axel Flóvent
 • Crack Cloud
 • Daughters of Reykjavík
 • Eydís Evensen
 • FLOTT
 • gugusar
 • HAM
 • LÓN
 • Metronomy
 • superserious
 • ZÖE

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV