Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Hækkun fasteignaverðs mest hér meðal Norðurlandanna

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Húsnæðisverð hækkaði mest á Íslandi meðal Norðurlanda í heimsfaraldrinum þótt það risi talsvert um þau öll. Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslunni State of the Nordic Region sem kemur út annað hvert ár á vegum Nordregio, rannsóknarstofnunar Norrænu ráðherranefndarinnar.

Linda Randall, annar skýrsluhöfunda, segir að það hve margir hafi unnið heima hjá sér í faraldrinum vera meðal þess sem áhrif hafi haft á húsnæðisverð. Jafnvel hafi verð sums staðar hækkað meira á landsbyggðarsvæðum en í stórborgum.

Finnland sker sig nokkuð frá hinum löndunum þar sem fasteignaverðshækkanir voru hóflegri og meiri stöðugleiki á markaðnum.

Skýrsluhöfundar komast einnig að þeirri niðurstöðu að vaxandi gjá hafi myndast milli svæða og þjóðfélagshópa á Norðurlöndum. Aldraðir, fólk fætt erlendis og ungt fólk hafi fundið fyrir mjög neikvæðum áhrifum af faraldrinum á heilsu og fjárhag.

Þó eru hagkerfi Norðurlanda sögð hafa ráðið vel við að vinna úr áhrifum faraldursins með mótvægisaðgerðum. Það eigi ekki síst við á Íslandi þótt atvinnuleysi hafi aukist mest hér á landi og mestur samdráttur orðið í vergri þjóðarframleiðslu.

Gjaldþrot hér á landi urðu til að mynda talsvert færri árið 2020 en í meðaltali áranna 2014 til 2019.

„Mótvægisaðgerðir í efnahagsmálum virðast hafa skilað nokkuð góðum árangri á Íslandi, þar sem ferðaþjónusta er stór atvinnugrein sem varð fyrir miklum áhrifum af heimsfaraldrinum,“ segir greinandinn Gustaf Norlén einn ritstjóra State of the Nordic Region. 

„En jafnframt sjáum við að stuðningsaðgerðir stjórnvalda við fyrirtæki og launþega hafa stuðlað að færri gjaldþrotum og talsvert hraðari bata en eftir fjármálakreppuna 2008,“ segir Norlén.