
Dregur úr bjartsýni Bandaríkjamanna um kjarnorkusamning
Rétt um vika er síðan embættismenn í Washington kváðust vongóðir um að endurnýjun samningsins væri í sjónmáli.
Með samkomulaginu frá 2015 var ákveðið að Íranir hættu að auðga úran og veittu eftirlitsmönnum Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar aðgang að kjarnorkuverum sínum.
Því var ætlað að tryggja að þeir kæmu sér ekki upp kjarnavopnum. Á móti skyldu Vesturveldin láta af refsiaðgerðum gagnvart Írönum. Bandaríkjamenn koma óbeint að viðræðunum en þeir sögðu sig frá samningnum á forsetatíð Donalds Trumps árið 2018.
„Við erum við það að ná samkomulagi, en þó ekki alveg komnir á leiðarenda,“ sagði Ned Price talsmaður ráðuneytisins 16. mars og kvaðst þess fullviss að unnt yrði að brúa helstu ágreiningsmálin.
Mestar líkur þóttu þá á að Íranir yrðu reiðubúnir til undirritunar samkomulags, strax eftir 20. mars en þá hefst persneska nýárið.
Í gær var kominn nýr og dekkri tónn í Price og í dag sagði hann að þótt viðræðurnar væru ekki komnar í blindgötu yrðu Íranir að nú að taka ákvarðanir sem þeim kunna að þykja óþægilegar.
Það eru orð sem fallið hafa beggja vegna samningaborðsins frá því viðræður hófust að nýju í nóvember en vitað er að Íranir eru nærri því að geta framleitt kjarnavopn.
Við það félli kjarnorkusamningurinn um sjálfan sig. Price sagði Bandaríkjamenn reiðubúna að leggja mikið á sig til að fullgera samninginn en meginkrafan sé enn þá sú að Íranir komi sér ekki upp kjarnavopnum.
Í kjölfar riftunarinnar voru refsiaðgerðir og þvinganar gegn Írönum endurvaktar. Þeir tóku þá að auðga töluvert meira úran en gert er ráð fyrir í upphaflega samningnum.