Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Börnum haldið inni vegna svifryks

23.03.2022 - 13:07
Mynd: Sölvi Andrason / RÚV
Halda þarf leikskólabörnum á Akureyri inni nokkra daga á ári vegna svifryksmengunar. Umferð á Akureyri eykst sífellt og búist við að mengun fari vaxandi á næstu árum. 

Yngstu börnin höfð inni

Á Akureyri er mælir sem metur loftgæði og birtir tölur um þau á vef Umhverfisstofnunar. Ef mengunarstig er hátt er tekin ákvörðun um að halda yngri börnum inni. Sú var til dæmis raunin tvo daga í síðustu viku á ungbarnaleikskólanum Klöppum á Akureyri.

Drífa Þórarinsdóttir, leikskólastjóri á Klöppum, segir ákvörðun hafa verið tekna að halda yngstu börnunum inni. „Við vorum búin að fylgjast með og fá fréttir af hárri svifryksmengun í bænum.“

Foreldrar eru stundum áhyggjufullir að börn þeirra séu úti þegar mengun er mikil og óska eftir að þau séu frekar inni. 

„Fólk er misviðkvæmt í öndunarfærum, þá kennarar og svo erum við með nemendur með undirliggjandi sjúkdóma og svo erum við með mjög ung börn,“ segir Drífa.

Umferð eykst frekar en hitt

Nýlega hefur Akureyarbær tekið í notkun nýjan metanknúinn götusóp og götur er hreinsaðar oftar en áður. Umferð er hins vegar mikil og langflestir keyra um á nagladekkjum.

Andri Teitsson, formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar, segir að rætt hafi verið um að hafa uppi hvatningu og tilmæli til bílstjóra. „Við höfum ekki vilja hafa uppi boð og bönn. Við höfum talað um að hvetja fólk til að keyra hægar þegar það eru svona aðstæður eða skilja bílinn eftir heima.“

Andri segir umferðina alls ekki fara minnkandi í bænum. „Nei, ég held að hún sé bara að aukast því það er uppgangur á Akureyri og hérna á Glerárgötu hér fyrir aftan okkur keyra um áttaþúsund bílar á dag.“

Snjóléttari vetur - meira svifryk

Veturnir á Akureyri hafi einnig breyst og snjór liggur ekki á götum eins stóran hluta vetrar og áður. Mikið af hálkuvarnarefni liggur þá á götum sem spænist upp þegar þurrt er orðið.

Rut Jónsdóttir, forstöðumaður umhverfismála hjá Akureyrarbæ, segir svifrykstímabiliði ekki eingöngu vera á vor- og haustmánuðum líkt og áður var. „Þetta er eitthvað sem við þurfum orðið að huga að alla mánuði ársins.“

Þannig að mengunin kannski getur verið að aukast jafnvel? „Já það er alveg líklegt miðað við það hvað við erum oft að fá þurrar götur,“ segir Rut.