Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Hundur banaði ungabarni

22.03.2022 - 04:27
Mynd með færslu
 Mynd: Galatas - Wikipedia
Hundur varð sautján mánaða stúlkubarni að bana á heimili hennar í bænum St. Helens á Englandi í gær. Foreldrar stúlkunnar keyptu hundinn viku áður en hann réðst á barnið. Stúlkan var flutt á sjúkrahús en lést þar af sárum sínum. Lögregla segir fjölskylduna algjörlega miður sín vegna atviksins.

Í frétt BBC segir að lögregla hafi fellt hundinn. Verið sé að rannsaka hvort hann hafi verið af kyni sem ólöglegt er að rækta á Englandi, og reynt að hafa uppi á fyrri eigendum hans.

Lisa Milligan, yfirlögregluþjónn, segir dauða stúlkunnar afar sorglegan atburð og að hugur allra sé hjá fjölskyldu hennar. Hún segir rannsókn málsins rétt að byrja, en þó sé vitað að hundurinn hafi aðeins verið viku í eigu fjölskyldunnar. Biður hún hvern þann sem gæti hafa einhverjar upplýsingar um árás hundsins eða fyrri eigendur hans að hafa samband við lögreglu.
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV