Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Hefði viljað meiri festu í viðbrögðum stjórnvalda

22.03.2022 - 22:06
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnars - RÚV
Samgönguútgjöld hafa hækkað um 20% á undanförnum tólf mánuðum samkvæmt nýrri úttekt. Formaður Neytendasamtakanna hefði viljað sjá ríkisstjórnina bregðast við hækkandi eldsneytisverði af meiri festu.

Síðustu tólf mánuði hefur kostnaður vegna kyndingar hér á landi hækkað um 6% og samgönguútgjöld um 20% sem eru minni áhrif en víða í Evrópu. Þetta kemur fram í minnisblaði sem var lagt fyrir ríkisstjórn í morgun um áhrifin af hækkandi orkuverði.

Ríkisstjórnin ætlar því ekki að bregðast við að svo stöddu en í minnisblaðinu segir að hækki orkuverð enn og verðhækkanir á húsnæði haldi áfram sé mikilvægt að fylgjast með áhrifum á tekjulág heimili. Ef talin er þörf á því að bregðast við áhrifum á þessa hópa þyrftu þær aðgerðir að vera afmarkaðar.

„Við hefðum viljað sjá ríkisstjórnina bregðast við af meiri festu í þessu,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.

Stjórnvöld í Svíþjóð og Írlandi hafa ákveðið að lækka tímabundið skatta á eldsneyti. Breki segir ríkisstjórnina hafa tæki til að bregðast við.

„Við hefðum viljað sjá það að ríkisstjórnin lækki álögur að minnsta kosti tímabundið á bensín. Við sjáum það áður en við byrjum að dæla hverjum einasta lítra borgum við 150 krónur til ríkisins. Í ofanálag erum við að borga virðisaukaskatt ofan á það,“ segir Breki jafnframt.

Framkvæmdastjóri rútufyrirtækisins Teits segir að rekstrarkostnaður hafi aukist umtalsvert og það kalli á verðhækkanir. Sem dæmi má nefna að kostnaður fyrirtækisins vegna um 270 kílómetra ferðar um gullna hringinn eykst um allt að tíu þúsund á dag á hverja rútu vegna hækkandi olíuverðs.

„Mörg fyrirtæki eru að ströggla eftir covid. Þó að í ferðaþjónustunni hafi ríkið hjálpað okkur gríðarlega mikið, eða mörgum. Þá er mjög skrítið að ríkið sé að græða á hækkun olíugjalds,“ segir Haraldur Teitsson framkvæmdastjóri Teits og formaður Félags hópferðaleyfishafa.

Haraldur segir að þetta verði tekið fyrir á stjórnarfundi Samtaka ferðaþjónustunnar á morgun. „Okkur fyndist að það ætti að koma eitthvað til móts [við fyrirtæki] að minnsta kosti meðan þetta stríð varir og olíuverð er svona rosalega hátt.“

Hvað viljiði þá sjá? „Fast gjald eða endurgreiðslu til stærri aðila,“ segir Haraldur jafnframt.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV