
Hefði viljað meiri festu í viðbrögðum stjórnvalda
Síðustu tólf mánuði hefur kostnaður vegna kyndingar hér á landi hækkað um 6% og samgönguútgjöld um 20% sem eru minni áhrif en víða í Evrópu. Þetta kemur fram í minnisblaði sem var lagt fyrir ríkisstjórn í morgun um áhrifin af hækkandi orkuverði.
Ríkisstjórnin ætlar því ekki að bregðast við að svo stöddu en í minnisblaðinu segir að hækki orkuverð enn og verðhækkanir á húsnæði haldi áfram sé mikilvægt að fylgjast með áhrifum á tekjulág heimili. Ef talin er þörf á því að bregðast við áhrifum á þessa hópa þyrftu þær aðgerðir að vera afmarkaðar.
„Við hefðum viljað sjá ríkisstjórnina bregðast við af meiri festu í þessu,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Stjórnvöld í Svíþjóð og Írlandi hafa ákveðið að lækka tímabundið skatta á eldsneyti. Breki segir ríkisstjórnina hafa tæki til að bregðast við.
„Við hefðum viljað sjá það að ríkisstjórnin lækki álögur að minnsta kosti tímabundið á bensín. Við sjáum það áður en við byrjum að dæla hverjum einasta lítra borgum við 150 krónur til ríkisins. Í ofanálag erum við að borga virðisaukaskatt ofan á það,“ segir Breki jafnframt.
Framkvæmdastjóri rútufyrirtækisins Teits segir að rekstrarkostnaður hafi aukist umtalsvert og það kalli á verðhækkanir. Sem dæmi má nefna að kostnaður fyrirtækisins vegna um 270 kílómetra ferðar um gullna hringinn eykst um allt að tíu þúsund á dag á hverja rútu vegna hækkandi olíuverðs.
„Mörg fyrirtæki eru að ströggla eftir covid. Þó að í ferðaþjónustunni hafi ríkið hjálpað okkur gríðarlega mikið, eða mörgum. Þá er mjög skrítið að ríkið sé að græða á hækkun olíugjalds,“ segir Haraldur Teitsson framkvæmdastjóri Teits og formaður Félags hópferðaleyfishafa.
Haraldur segir að þetta verði tekið fyrir á stjórnarfundi Samtaka ferðaþjónustunnar á morgun. „Okkur fyndist að það ætti að koma eitthvað til móts [við fyrirtæki] að minnsta kosti meðan þetta stríð varir og olíuverð er svona rosalega hátt.“
Hvað viljiði þá sjá? „Fast gjald eða endurgreiðslu til stærri aðila,“ segir Haraldur jafnframt.