Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Fyrirmyndarfarþegar til Hríseyjar

21.03.2022 - 10:33
default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Hríseyingar hafa sett saman leiðarvísi til að tryggja að gestir sem koma með skemmtiferðaskipum sýni fólki og náttúru virðingu. Formaður Ferðamálafélagsins býst því einungis við fyrirmyndargestum í sumar.

Undirbúa sig fyrir móttöku skemmtiferðaskipa

Haldin var vinnustofa með fulltrúum Ferðamálafélagsins í Hrísey, hagsmunaaðila og hverfisráðs eyjunnar um ýmsa möguleika sem felast í komum skemmtiferðaskipa til Hríseyjar. Unnið er að verkefninu með alþjóðlegum samtökum minni skemmtiferðaskipa.

Ferðir skemmtiferðaskipa til Hríseyjar lögðust af í faraldrinum en í sumar er búist við að minnsta kosti tíu skipum. Linda María Ásgeirsdóttir, formaður Ferðamálafélags Hríseyjar, segir íbúa sjá tækifæri í fjölgun skemmtiferðaskipa en vilja undirbúa sig. 

„Við teljum þetta vera mjög jákvætt fyrir okkur en það þarf að passa að það komi ekki of margir í einu og þessi minni skip eru yfirleitt bara með svona tvöhundruð farþega,“ segir Linda.

Liggja stundum á gluggum hýbýla

Settar hafa verið niður hugmyndir að eins konar leiðarvísi fyrir gesti. Á eyjunni er til að mynda viðkvæmt fuglalíf sem gestir þurfi að taka tillit til. Linda segir einnig stóran hluta eyjunnar vera í einkaeigu þannig að fólk geti ekki vaðið um allt. 

„Þetta verður ekki þannig að það megi ekki neitt. Bara þessar algengu reglur. Við viljum ekki að verið sé að taka myndir af börnunum okkar án þess að fá leyfi. Að það sé ekki verið að fara inn í garða. Ég meina sums staðar er þetta þannig að fólk sé að fara inn í hús, það liggur á gluggunum.“

Nú sé verið að vinna úr þeim ábendingum sem fram komu á vinnustofunni og leiðarvísir verður síðan útbúinn og afhentur farþegum áður en farið er frá borði. Þeir skuldbindi sig til að fara eftir reglunum. 

Þannig að þetta verður tilbúið fyrir þá sem eru að koma í vor og sumar? „Já já, við verðum bara með fyrirmyndarfarþega hérna í sumar,“ segir Linda.