Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Hvetur Úkraínumenn til að afvopnast og flýja Mariupol

20.03.2022 - 23:15
In this satellite photo from Planet Labs PBC, multiple civilian buildings burn amid Russian strikes on the Livoberezhnyi District of Mariupol, Ukraine, Sunday, March 20, 2022. Ukrainian authorities said Sunday that Russia's military bombed an art school sheltering some 400 people in the port city of Mariupol, where heavy street fighting was underway weeks into a devastating Russian siege. (Planet Labs PBC via AP)
 Mynd: AP
Rússneska varnarmálaráðuneytið hvetur Úkraínumenn til að hætta að reyna að verja hafnarborgina Mariupol, leggja niður vopn og forða sér ásamt almennum borgurum á morgun, mánudag, og heitir því að tryggja öryggi allra á flóttanum. Geri þeir það ekki, verði þeir hins vegar dregnir fyrir herdómstól í Rússlandi.

„Við hvetjum sveitir Úkraínuhers og þjóðvarðliðs og erlenda málaliða til að hætta bardögum, leggja niður vopn og yfirgefa Mariupol eftir flóttaleiðum sem samið var um við Úkraínustjórn, til svæða sem lúta yfirráðum stjórnarinnar í Kænugarði. Öryggi allra sem leggja niður vopn er tryggt,“ hefur Tass eftir Mikhail Mizintsev, hershöfðingja og yfirmanns hernaðarmála í ráðuneytinu.

„Ef ráðamenn í Kænugarði svíkja ykkur enn einu sinni og skipa ykkur að deyja sem píslarvottar, þá hvetjum við þá ykkar sem er umhugað um eigið líf: Þið getið þetta [lagt niður vopn og yfirgefið borgina, TASS] sjálfir, í hópum,“ sagði Mizintzev.

Milli 300 og 400 þúsund manns eru innikróuð í rústum Mariupol, sem sætt hefur linnulitlum sprengju- og stórskotaliðsárásum vikum saman. Ítrekað hefur verið samið um tímabundið vopnahlé og öruggar flóttaleiðir fyrir almenning en vopnahléin hafa oftar en ekki verið rofin áður en brottflutningur gat hafist.

Þá hafa Rússar ekki heimilað brottflutning fólks í rútum, heldur einungis einkabílum, sem hefur takmarkað mjög fjölda þeirra sem komast frá borginni hverju sinni.