Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Sakna fæstir afmælisbarnsins

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Grindvíkingar héldu upp á gosafmælið í dag. Þótt gosið hafi komið bænum í heimsfréttirnar eru fæstir sem sakna þess. Þeir þurfa þó að búa sig undir möguleg eldgos í fyrirsjáanlegri framtíð.

Eldgosið í Geldingadölum var merkilegt fyrir margra hluta sakir. Upp úr stendur þó að Reykjanesskagi er vaknaður eftir 800 ára hlé. „Við vitum ekki hvernig þróunin verður áfram. Ég held að við eigum ekki að búast við neinum hörmungum eða slíku en það fólk sem mun búa á þessu svæði næstu áratugi og aldir, það mun búa við það að það geti orðið eldgos í bakgarðinum,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði.

Gullnáma fyrir vísindamenn

Hvar og hvenær næst gýs verður tíminn að leiða í ljós. Litlu munaði milli jóla og nýárs þegar mikil jarðskjálftahrina varð vegna kvikuinnskots sem ekki náði upp á yfirborð. Fyrir jarðvísindamenn hefur eldgosið reynst gullnáma og heilmikil þekking skapast, bæði hvað varðar aðdraganda gossins, efnasamsetningu kvikunnar og mælingar á hraunrennsli.

Uppgrip fyrir ferðaþjónustu

En gosið reyndist líka heilmikil auglýsing fyrir Grindavík, ekki bara hér heldur á heimsvísu. Það hafði áhrif á bæjarlífið og fyrstu vikurnar eftir gosið var karnival-stemning í bænum.

„Það varð heilmikil umferð hjá okkur inn í bæinn. Þannig séð nutu ferðaþjónustuaðilar góðs af þessu; veitingastaðir, verslanir og svo framvegis. Þetta var auðvitað meinlaust gos þar sem það kom upp og var ekki að valda okkur miklum vandræðum en athyglin var mikil og það var ánægjulega fjölmennt hjá okkur, segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar.

Var hryllilega leiðinlegt

Gosið er bæjarbúum enn ofarlega í huga og í dag eru allnokkrir viðburðir á dagskrá til heiðurs afmælisbarninu sem þó fáir sakna. Einkum og sér í lagi umferðaröngþveitisins í bænum sem einkenndi fyrstu vikur gossins. „Þetta var hryllilega leiðinlegt. Maður var alveg lengi að komast heim af því að það var röð í gegnum allan bæinn,“ segir Rósa Lilja Bergland Fjóludóttir íbúi í Grindavík.

Marcin Ostrowski tekur undir með henni. „Þetta var alveg orðið þreytt. Það voru alveg bullandi raðir niður á lón, maður komst ekkert þegar maður var að sækja krakkana úr skólanum, eða Nettó. Það var ekki hægt að hreyfa sig í þessum litla bæ.“

Grindvíkingar bjuggust fæstir við eldgosi í bakgarðinum og þurfa nú að lifa með því að þetta geti orðið reglulegur viðburður. Alda Margrét Hauksdóttir segir að það hafi verið léttir þegar eldgosið hófst, því þá hættu jarðskjálftarnir. „Við vitum ekki hvort þetta kemur upp aftur. Við eigum alveg eins von á því. Það eru alltaf jarðskjálftar, þótt þeir séu ekki miklir. Við finnum stundum fyrir þeim, oftast ekki en þá er þetta þarna enn þá: „Ok, er þetta að koma aftur.““

Jóna Sigurborg Einarsdóttir átti síst von á eldgosi þegar hún flutti aftur til Grindavíkur. „Þá gerir helvítis eldgos og jarðskjálfta eftir að maður flutti hingað, eftir að ég flutti 2019 hingað aftur í heimabyggð.“

Enn aðdráttarafl þrátt fyrir goslok

Þegar vika var liðin af eldgosinu hóf Ferðamálastofa að mæla fjölda ferðalanga að gosstöðvunum. Frá upphafi hafa 366 þúsund manns lagt leið sína þangað og eru þá ótaldir þeir sem sáu gosið úr lofti eða fóru fram hjá merktu gönguleiðum. Eðli málsins samkvæmt fóru flestir á meðan gosið var í gangi en engu að síður sækja tvö til þrjú hundruð manns svæðið daglega.

Þótt hálft ár sé liðið síðan það slökknaði í síðasta gígnum hafa eldstöðvarnar enn þá heilmikið aðdráttarafl. Jafnvel á degi sem þessum, þar sem veður er hráslagalegt og skyggni takmarkað, þá býður rjúkandi hraunbreiðan upp á heilmikið sjónarspil.

Magnús Geir Eyjólfsson