Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Háskóladagurinn í fyrsta sinn utan höfuðborgarinnar

19.03.2022 - 12:00
Mynd með færslu
 Mynd: Eva Björk Benediktsdóttir - RÚV
Háskóladagurinn er haldinn í Háskólanum á Akureyri í dag. Áhugasömum gefst þar kostur á að kynna sér allt háskólanám sem er í boði á landinu. Þetta er í fyrsta skipti sem viðburðurinn er haldinn utan höfuðborgarsvæðisins.

Dagurinn stafrænn í faraldrinum

Ekki hefur verið unnt að halda háskóladaginn nema stafrænt síðustu tvö ár, vegna faraldursins. Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, segir að fulltrúar allra háskóla landsins séu komnir til Akureyrar og þeir spjalla við gesti um hvaðeina sem viðkemur námsvali og háskólalífi. 

„Þetta er stórmerkilegur viðburður því í fyrsta skipti í sögunni, held ég að geti hreinlega sagt, er haldinn sameiginlegur viðburður allra sjö háskólanna utan höfuðborgarsvæðisins. Þetta er dagur sem er búinn að vera í ansi mörg ár fyrir sunnan og heitir Stóri háskóladagurinn,“ segir Eyjólfur.

Samráðsfundur sjö rektora

Rektorar skólanna sjö byrjuðu daginn á samráðsfundi. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fundaði með rektorunum og opnaði síðan háskóladaginn formlega. Hann stendur til klukkan þrjú í dag.

Dagurinn er öllum opinn, hvort sem þeir hyggja á háskólanám eða hafa einfaldlega áhuga á að kynna sér háskólasamfélagið.

„Það er svolítið skemmtilegt fyrir fólk að koma á háskóladaginn. Það er gott að það sé fjölbreytt námsframboð á Íslandi. Sumar námsgreinar eru kannski við marga skóla en eru kenndar með mismunandi hætti. Þá kemurðu bara á staðinn, hittir þar fulltrúa allra háskóla og alls náms sem er í boði á Íslandi og getur tekið ákvörðun hvernig þú vilt nálgast þitt nám, segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA.