Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

„Byrjunarörðugleikar“ með Klapp app Strætó

18.03.2022 - 09:24
Mynd: RÚV / RÚV
Mikil óánægja hefur verið með nýja greiðslukerfi Strætó, appið Klapp, sem virðist ekki virka sem skyldi. Notendur hafa margir lýst yfir gremju sinni á samfélagsmiðlum. Hjálmar Sveinsson, stjórnarformaður Strætó, segir að unnið sé að lagfæringu. Hann var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun.

„Það verður að segjast eins og er, eins og var nú búið að undirbúa þetta mikið og vel, að innleiðingin hefur ekki tekist eins og vonir stóðu til. Það er ýmislegt sem kemur til, það eru vandræði ekki síst út af skönnum sem skanna inn þegar þú setur klappkortið á og líka á appinu í gegnum síma og fyrir alls ekki löngu var gerð tölvuárás á Strætó og það tafði þetta,“ segir Hjálmar.

Hann segir að Strætó vinni nú að lausn á málinu, en þorir ekki að segja hve langan tíma það taki. 

„En það er bara staðreynd að þetta hefur ekki gengið eins vel og við vonuðumst til og það er bara mjög leiðinlegt en auðvitað er verið að vinna að því á fullu að koma í veg fyrir hnökra. þannig að þetta virki eins og þetta eigi að gera. En við lítum á þetta sem byrjunarerfiðleika sem hefði ekki endilega þurft að eiga sér stað en átti sér stað og vonandi bara gengur það sem allra fyrst að kippa þessu í liðinn.“