Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Ætlaði til Reykjavíkur en fékk flug til Egilsstaða

18.03.2022 - 12:12
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhann Bjarni Kolbeinsson - RÚV
Kona sem átti bókað flug með Icelandair frá Akureyri til Reykjavíkur fékk skilaboð um að hún hefði verið endurbókuð til Egilsstaða og þaðan í flug næsta dag til Reykjavíkur. Hún segir óþægilegast við svona breytingar að geta ekki náð í neinn til að fá útskýringar.

Óvænt boðið upp á dagsferð á Egilsstöðum

Sonja Sif Jóhannsdóttir býr á Akureyri. Hún átti tíma hjá lækni í Reykjavík í dag, og bókað flug til Reykjavíkur í gær. Vegna veðurs féll niður flugið niður og hún fékk skilaboð um það.

„Nema svo kemur annað SMS um að ég eigi flug til Egilsstaða 18. mars, sem er föstudagur. Til Egilsstaða og svo frá Egilsstöðum til Reykjavíkur á laugardeginum 19. mars. Mér fannst þetta náttúrulega mjög sérstakt,“ segir Sonja.

Erfitt að nálgast upplýsingar

Sonja segist strax hafa reynt að ná í einhvern til að fá á þessu útskýringar en án árangurs.

„Þetta var mjög sérstakt, Ég náði ekki á neinum fyrr en klukkan sjö í morgun en þá opnar þjónustuverið og þá beið ég í góðan hálftíma áður en ég náði á einhverjum.“

Hún segist ekki hafa fengið neina skýringu á þessari óvæntu dagsferð til Egilsstaða, sem henni var boðið upp á. Hún fékk þó flugið endurgreitt enda lögð af stað akandi til Reykjavíkur til komast í læknistímann.

Líklega mistök í upplýsingagjöf

Samkvæmt upplýsingum Icelandair tók flugfélagið þotu á leigu til að halda uppi innanlandsflugi í dag en fullt er í allar ferðir dagsins. Þotan fer í dag frá Reykjavík til Akureyrar, þaðan til Egilsstaða og svo til Reykjavíkur í kvöld. Engar skýringar fást á skilaboðunum til Sonju um að hún ætti flug frá Egilsstöðum rúmum sólarhring eftir að hún átti að lenda þar. Ásdís Ýr Pétursdóttir upplýsingafulltrúi Icelandair gerir ráð fyrir að mistök hafi verið gerð í upplýsingagjöf.