Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Veðurfræðingur: Erfiður veðurdagur fram undan

Mynd með færslu
 Mynd:
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur Vegagerðarinnar segir að dagurinn í dag verði harla erfiður, sérstaklega á vestanverðu landinu. Gul veðurviðvörun er í gildi á öllu landinu með suðvestan hvassviðri og éljagangi. Veðrið hefur skánað í bili vestanlands, hitinn er kominn yfir frostmark og ekki er lengur hríð.

Einar segir veður fara versnandi á Norður- og sérstaklega á Vesturlandi og að það fari að snjóa austur með landinu.

„Krapi er á vegum á Suðausturlandi. Lægðin sem þessu veldur er dálítið myndarlegt kerfi. Hún er leiðinni norður fyrir Garðskaga og þá skellur á vestanátt aftur með hríðarveðri eða þéttum éljum. Það verður viðvarandi sérstaklega um vestanvert landið með blindu.“

Reykjanesbraut var opnuð á áttunda tímanum og Kjalarnesið líka. „ Það er enn lokað austur fyrir fjall og á Mosfellsheiði. Síðan hefur Holtavörðuheiði verið lokað og það má búast við því að fleiri vegir um norðvestanvert landið teppist á næstunni.“

Þannig að dagurinn verður erfiður? „Dagurinn verður erfiður og reyndar fram á morgundaginn. Sérstaklega á það við um vestanvert landið.“  

En þýðir gul veðurviðvörun ekki fyrst og fremst að venjulegt vetrarveður sé í kortunum? Einar segir veðrið í dag ekki beint venjulegt vetrarveður auk þess sem það sé seint á ferðinni. 

„Það er vissara að fara varlega og taka mark á viðvörunum, sérstaklega þegar þeim fylgir vond færð og erfiðar samgöngur.“