Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

„Kína mun aldrei ráðast á Úkraínu“

17.03.2022 - 06:26
epa09826305 Czech hedgehogs are placed on a street in Kyiv (Kiev), Ukraine, 15 March 2022. Kyiv authorities announced a 35-hour curfew from 8 p.m. on 15 March until 7 a.m. on 17 March after a number of residential buildings in the capital were hit during early morning Russian air strikes.  EPA-EFE/Andrzej Lange POLAND OUT
Frá Kænugarði Mynd: EPA-EFE - PAP
„Kína mun aldrei ráðast á Úkraínu,“ sagði sendiherra Kína í Úkraínu á fundi með úkraínskum herstjórnendum í borginni Lvív í vesturhluta landsins í gær, samkvæmt frétt úkraínska miðilsins Ukrinform, sem vitnar í blaðafulltrúa herstjórnarinnar.

Sendiherrann, Fan Xianrong, lofaði samstöðu og þrautseigju Úkraínumanna og virðist með því tala nokkuð á skjön við yfirlýsta afstöðu stjórnvalda í Beijing sem hefur lagt áherslu á traust samband Kína og Rússlands.

„Kína mun aldrei ráðast á Úkraínu heldur munum við aðstoða, sérstaklega í efnahagsmálum. Í þessari stöðu, sem þið eruð núna, þá munum við ganga fram af ábyrgð. Við höfum séð hve stórkostleg samstaða úkraínsku þjóðarinnar er, og hún er til marks um styrk hennar,“ sagði sendiherrann, sem sagði Kína og Úkraínu tengjast sterkum böndum eftir þrjátíu ára stjórnmálasamband.

„Kína er vinaríki úkraínsku þjóðarinnar. Sem sendiherra get ég sagt með vissu að Kína muni alltaf vera jákvætt afl gagnvart Úkraínu, bæði efnahagslega og pólitískt. Við munum ætíð virða ríki ykkar, við munum þróa samskipti okkar á grundvelli jafnræðis og gagnkvæmra hagsmuna. Við munum virða þá braut sem Úkraínumenn kjósa að feta, því að það er réttur hverrar fullvalda þjóðar,“ sagði sendiherrann Fan, samkvæmt frétt The Guardian.

Stjórnvöld í Beijing hafa staðið af sér allan þrýsting um að fordæma innrás Rússa í Úkraínu án þess þó að lýsa beinum stuðningi við hana heldur. Þess í stað hefur hann lofað órofa vináttu Kína og Rússlands um leið og hann hefur hvatt til samninga og friðsamlegrar lausnar á yfirstandandi átökum.