Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Brittney Griner áfram í haldi rússneskra yfirvalda

epa08198631 United States? Brittney Griner (R) in action against Serbia?s Tina Jovanovic (L) during the Women's Olympic Qualifying Tournament game between USA and Serbia in Belgrade, Serbia, 06 February 2020.  EPA-EFE/ANDREJ CUKIC
 Mynd: EPA - RÚV

Brittney Griner áfram í haldi rússneskra yfirvalda

17.03.2022 - 23:36
Rússneskur dómstóll ákvað í dag að framlengja gæsluvarðhald yfir Brittney Griner sem er ein fremsta körfuboltakona Bandaríkjanna. Hún var stöðvuð af tollvörðum á leið frá Rússlandi í síðasta mánuði vegna gruns um að kannabis væri í vökva fyrir rafrettu hennar. Samskipti Bandaríkjanna og Rússlands, sem eru við frostmark vegna innrásar Rússa í Úkraínu, liðka ekki fyrir lausn leikmannsins.

Griner er tvöfaldur Ólympíumeistari og leiddi lið sitt Phoenix Mercury til sigurs í bandarísku WNBA-deildinni árið 2014.  Og hún verður í haldi þar til 19. maí en hún gæti átt yfir höfði sér 10 ára fangelsi.

Hún er 31 árs og var fyrsti hinsegin íþróttamaðurinn til að fá auglýsingasamning hjá Nike. Þeir sem fylgjast með bandarískum kvennakörfubolta segja hana eina bestu körfuboltakonu allra tíma og jafn mikilvæga fyrir íþróttina og Tom Brady fyrir bandarískan ruðning.

Þrátt fyrir það hefur handtaka hennar vakið litla athygli.  Verjendur hennar reyndu að fá hana lausa úr haldi þar sem þeir töldu viðbrögðin við meintu broti hennar vera of hörð.  Bandaríska körfuboltasambandið sagði á Twitter -síðu sinni að það fylgdist grannt með framvindu mála og velferð hennar væri í forgangi.

Ekkert hefur heyrst frá Griner í þann mánuð sem hún hefur verið í haldi og aðdáendur hennar segja áhugaleysi fjölmiðla mega rekja til þess að hún sé kona. „Ef þetta væri leikmaður í NBA-deildinni væri þetta ekki aðeins forsíðuefni á íþróttasíðunum heldur í öllum fjölmiðlum,“ hefur BBC eftir Tamryn Spruill sem er með bók í smíðum um WNBA-deildina og áhrif Griner á hana.

Melisssa Jackson, annar íþróttafréttamaður, segir hana vera þá bestu í íþróttinni og auðveldlega væri hægt að færa rök fyrir því að hún væri meðal bestu íþróttamanna heims. 

Ástæðan fyrir því að Griner var í Rússlandi tengist því að hún er atvinnumaður í WNBA. Því laun þeirra bestu í deildinni eru 200 sinnum lægri en launatékki leikmanna í NBA-deild. Leikmenn úr WNBA hafa því brugðið á það ráð að með liðum í Evrópu, meðal annars Rússlandi, til að drýgja tekjurnar þegar deildin í Bandaríkjunum er fríi.

Í frétt New York Times kemur fram að rússnesk yfirvöld hafi hafnað beiðni bandaríska utanríkisráðuneytisins um að sendiráðsstarfsmenn fái að hitta Griner.  

Tengdar fréttir

Erlent

Bandarísk körfuboltastjarna handtekin í Rússlandi