Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Sjúkraliðar telja sér mismunað á Landspítala

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sjúkraliðafélag Íslands gagnrýnir harðlega stjórnendur Landspítala og segir kjör á spítalanum mun lakari en á öðrum heilbrigðisstofnunum. Formaður félagsins telur þeim einnig mismunað með lægri álagsgreiðslum en aðrir heilbrigiðisstarfsmenn hafa fengið vegna heimsfaraldursins.

Sjúkraliðafélagið hefur undanfarna mánuði verið í samningaviðræðum við stjórnendur Landspítala um endurskoðun stofnanasamninga stéttarinnar. Í gildandi kjarasamningi sjúkraliða segir að árið 2022 eigi ný launatafla að taka gildi, sem gefi aukinn sveigjanleika og með því verði stofnanasamningar endurskoðaðir.

Sandra B. Franks, formaður sjúkraliðafélagsins, segir lítinn vilja hjá stjórnendum spítalans að standa við það loforð.

„En núna þá virðist Landspítalinn bara ákveða það að hundsa okkar efnislegu athugasemdir um að uppfæra samninginn til samræmis við það sem gerist á öðrum heilbrigðisstofnunum“ segir Sandra.

„Þetta er ekki nema um 0,2% kostnaðarauki fyrir Landspítalann og það ætti ekki að setja starfsemina á hliðina. Þannig að það er sveigjanleiki inni í rekstrinum til að koma til móts við okkar kröfur“ segir Sandra.

33% lægri álagsgreiðslur vegna COVID-19

Í heimsfaraldrinum ákvað Landspítalinn að bjóða starfsfólki viðbótarálagsgreiðslur vegna aukavakta. Sjúkraliðar telja sér aftur á móti mismunað, þar sem þeir fá 33 prósentum lægri álagsgreiðslur en annað heilbrigðisstarfsfólk. Stjórnendur spítalans segja ekki sé til fjármagn til þess að koma til móts við kröfur stéttarinnar.

Bæði varðandi þetta og eins varðandi stofnanasamninga, hvaða svör hafiði fengið frá stjórn Landspítala? Eða hafa þau einhverjar skýringar gefið?

„Já þau segja það sé ekki til neitt fjármagn til þess að koma til móts við kröfur sjúkraliða. Það sé ekki til sveigjanleiki“ segir Sandra.