Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

„Örsláturhús eru framtíðin“

16.03.2022 - 15:23
Mynd með færslu
 Mynd: bbl.is - RÚV
Aðeins þrjú lögbýli eru með rekstrarleyfi fyrir svokölluð örsláturhús hér á landi en leyfi fyrir þeim var fyrst veitt í vor. Bændur einna þessara býla bjóða nú öðrum bændum ókeypis ráðgjöf við að koma sé upp aðstöðu og segja framtíðina vera í örslátrun. 

Miðla þekkingunni til bænda

Örsláturhús eru þegar bændur slátra heima á bænum í staðinn fyrir að senda fé til slátrunar á stór sláturhús. Þröstur Heiðar Erlingsson og Ragnheiður Erla Brynjólfsdóttir, bændur í Birkihlíð í Skagafirði, eru ein þeirra sem hafa fengið leyfi til heimaslátrunar. Þau ætla að miðla þekkingu sinni áfram með ókeypis ráðgjöf.  

„Við fórum í þetta svona til að hjálpa bændum, til að þeir þurfi ekki að finna upp hjólið sjálfir. Nú erum við náttúrulega komin með reynslu, búin að slátra heima og búin að fara í gegnum þetta. Við viljum bara miðla þeirri þekkingu og upplýsingum til bænda,“ sedgir Þröstur.

Til þess hafa þau fengið styrk frá Markaðssjóði sauðfjárafurða og munu bjóða upp á fræðslu í fjarfundarformi.

Dýravelferð og hærra verð

Þröstur segir marga kosti fylgja slátrun heima á bænum. Ein þeirra sé dýravelferð, að dýrið sé ekki flutt langa leið til slátrunar og sett í ókunnar aðstæður. Önnur ástæða sé að bændur geti fengið meira greitt fyrir afurðirnar.

„Þá ertu alla vega kominn með virðiskeðjuna heim á bæinn og það er í rauninni eina leiðin til að hafa eitthvað út úr þessu,“ segir Þröstur

Bændur fái þannig allan innmat, hausinn og gæruna og geti nýtt sér frekar. Það sé ýmislegt sem hægt er að nýta þær afurðir í og ýmiskonar nýsköpun sem bændur geta þróað áfram, segir Þröstur. Hann segir það sama sé ekki hægt að segja um þegar slátrað er á stórum sláturhúsum. „Það náttúrulega á sér ekki stað mikið, þegar það snýst um að rusla þessu af á tveimur mánuðum og svo bara slengja þessu út á markaðinn og í rauninni að afsetja þetta í hvelli.“

Vilja vita hvaðan varan kemur

Neyslumynstur er mikið að breytast segir Þröstur og krafa sé frá neytendum að vita um hvaðan vara kemur. Stórmarkaðir hafi þannig áhuga á að kaupa beint frá bændum sé það í boði.

„Ég held að þetta sé framtíðin,“ segir Þröstur.