Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Svikahrappinum Önnu Sorokin vísað frá Bandaríkjunum

15.03.2022 - 06:15
Mynd með færslu
 Mynd: Anna Delvey - instagram.com/annadlvv/
Bandarisk stjórnvöld hafa vísað Önnu Sorokin sem einnig er þekkt sem Anna Delvey úr landi til síns heima í Þýskalandi.

Anna Sorokin er rétt rúmlega þrítug, fædd í Rússlandi en fluttist með foreldrum sínum til Þýskalands á unglingsárum. Faðir hennar er flutningabílstjóri og móðir hennar verslunarmaður.

Anna komst ung á mála hjá tískutímaritinu Purple og fluttist til New York í Bandaríkjunum þar sem henni tókst með bellibrögðum að svíkja fjölda fólks á árunum 2016 og 2017.

Hún kom fram undir nafninu Anna Delvey og með framkomu sem einkenndist gríðarlegu sjálfsöryggi tókst henni að fá nokkra þarlenda banka til að lána sér hundruð þúsunda dala.

Hún lét sem hún ætti um 60 milljón dala arf í vændum sem afkomandi þýskra auðkýfinga. Hún bjó út á krít á glæsihótelum og lifði hátt án þess að greiða fyrir það sjálf.

Hún ferðaðist með einkaþotum og falaðist eftir 22 milljóna dala láni til stofnunar listaklúbbs á Manhattan. Talið er að Önnu hafi tekist að svíkja út um 275 þúsund dali áður en upp komst og hún var sótt til saka.

Hún var dæmd til fjögurra til tólf ára fangavistar en látin laus í febrúar á síðasta ári vegna góðrar hegðunar. Mánuði síðar var hún handtekin þar sem vegabréfsáritun hennar var útrunnin.

Hún var í varðhaldi þar til í gær að hún var send með flugi heim til Þýskalands. 

Ævi Önnu Sorokin varð kveikjan að þáttaröðinni Inventing Anna sem Shonda Rhimes framleiddi fyrir Netflix streymisveituna þar sem Julia Garner fór með aðalhlutverk. Heimildir herma veitan hafi greitt Önnu 320 þúsund Bandaríkjadali fyrir söguna. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV