Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Hægt að bjarga sex mannslífum árlega með skimun

15.03.2022 - 17:09
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Unnt er að bjarga sex mannslífum á ári með því að taka upp reglubundna skimun fyrir ristilkrabbameini. Meltingarskurðlæknir furðar sig á að skimun sé ekki hafin. Rúm tuttugu ár eru síðan ákveðið var að ráðast í verkefnið. 

Krabbamein í ristli og endaþarmi er næstalgengasta krabbameinið sem greinist á Íslandi og næstalgengasta dánarorsökin þegar kemur að krabbameinum. Árið 2001 mælti landlæknir og þverfaglegur hópur sérfræðinga með því að hafin yrði reglubundin skimun fyrir krabbameini í ristli

„Síðan hafa verið nokkrir ráðgjafahópar skipaðir og allir komist að sömu niðurstöðu en aldrei verið tekið skrefið til að hefja skimun,“ segir Anna Sverrisdóttir meltingaskurðlæknir.

En síðasta sumar var Heilsugæslunni falið verkefnið og er unnið að undirbúningi skimunar hjá Samhæfingarstöð krabbameinsskimana hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Ekki er gert ráð fyrir að skimanir hefjist fyrr en á næsta ári. Eitt af mörgum verkefnum er að fara yfir hverja er búið að spegla nú þegar og koma miðlægri skimunarskrá af stað, segir í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu. 

„Skimun fyrir ristilkrabbameini lækkar dánartíðni og lækkar með tímanum nýgengi á krabbameininu með því að greina forstig,“ segir Anna.

Stefnt er því að bjóða fólki 50 til 74 ára upp á skimun. Þeir fá sýnatökusett sent heim, taka sýnið sjálfir og senda til baka.

„Í þeim aldurshópi á Íslandi deyja í dag 29 sjúklingar árlega og það væri hægt að bjarga sex af þeim frá dauðsfalli á ári,“ segir Anna.

Anna vann í níu ár í Bretlandi við skimun fyrir ristilkrabbameini. Forritið sem notað er þar var afhent Íslendingum endurgjaldslaust og hefur verið þýtt á íslensku en aldrei notað. 

„En þá kom svarið að þetta væri alveg að bresta á, skimunin væri að bresta á á næsta ári. Þannig að við fengum ekki að prufukeyra. Hvað finnst þér um það? Mér þykir það leitt því það eru komin fjögur ár síðan þetta var,“ segir Anna.