Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Geðheilsa unga fólksins í landinu áhyggjuefni

15.03.2022 - 16:27
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Héðinn Unnsteinsson, formaður Geðhjálpar, segir of litlu fjármagni varið í geðheilbrigðismál. „Við erum bara með fimm, sex prósent af heildarútgjöldum til heilbrigðismála í geðheilbrigðismál samkvæmt nýrri rétt óútkominni skýrslu Ríkisendurskoðunar sem er að koma vonandi í þessari eða næstu viku. Þannig að það vantar klárlega í fjármagn málaflokkinn og hefur gert í langan tíma,“ segir Héðinn.

Þannig hafi það verið í langan tíma. Félagið vinni að geðheilbrigðisstefnu fyrir ráðherra ásamt fagfólki fyrir vorþingið. Héðinn segir að geðheilsa unga fólksins í landinu sé áhyggjuefni. 81 prósent gagnfræðaskólanema hafi í könnun árið 2014 metið andlega heilsu sína mjög góða eða góða. Hlutfallið hafi hrapað niður í 57 prósent árið 2021, geðlyfjanotkun hafi aukist og líðan ungs fólks versnað.

Vantar tölfræði 

Héðinn segir segir hins vegar að tölfræði sé ábótavant í þessum málaflokki. „Sterkasti mælikvarðinn sem við höfum á geðheilsu eru sjálfsvíg. Við höfum verið að vekja athygli á því.  Árið 2019 féllu 39 fyrir eigin hendi og talan var komin upp í 47 árið 2020. Við bíðum enn eftir tölum fyrir 2021 en þær koma núna frá landlæknisembættinu í júní.“

Héðinn segir að covid-faraldurinn hafi vissulega haft áhrif á geðheilsu fólks, margt spili þar inn í, veður, samfélagsmiðlar og stríð til dæmis.  Von er á skýrslu frá Ríkisendurskoðanda en þar kemur fram að lítið af heildarútgjöldum heilbrigðismála fari í geðheilbrigðismál. Spurður segir hann ekki nóg gert til að hlúa að fólki. 

„Aldrei nóg að gert. Við erum bara með fimm, sex prósent af heildarútgjöldum til heilbrigðismála í geðheilbrigðismál samkvæmt nýrri rétt óútkominni skýrslu Ríkisendurskoðunar sem er að koma vonandi í þessari eða næstu viku. Þannig að það vantar klárlega í fjármagn málaflokkinn og hefur gert í langan tíma,“ segir Héðinn.