Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Forstjórar hækka um margföld árslaun Eflingarfólks

15.03.2022 - 19:11
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr - RÚV
Mörg dæmi eru um að hækkun á árslaunum forstjóra fyrirtækja nemi margföldum árslaunum Eflingarfólks á algengum taxta. Mest er hún fimmföld árslaun Eflingarmanns.

Fréttastofan tók saman laun forstjóra nokkurra opinberra fyrirtækja sem skilað hafa ársreikningum  fyrir síðasta ár og fyrirtækja sem skráð eru í kauphöllinni. Í einhverjum tilvikum kann að muna hvort birt eru föst laun eða laun með mótframlagi í lífeyrissjóð eða laun og hlunnindi saman, allt tölur úr ársskýrslum, en stóra myndin ætti að vera skýr. 

Ef við byrjum á fyrirtækjum í opinberri eigu þá sést að forstjóri Landsvirkjunar var með rúmar 43 milljónir króna í árslaun á síðasta ári og hækkuðu árslaun hans um 1,3 milljónir króna á milli ára. Þetta gerir tæpar 3,6 milljónir króna í mánaðarlaun. Forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur hækkaði um 6,8 milljónir á milli áranna 2020 og 2021 og er með 3,2 milljónir króna í mánaðarlaun, en forstjóri Isavia hækkaði um 400 þúsund krónur á milli ára og var með 42 milljónir í árslaun á síðasta ári eða um þrjár og hálfa milljón króna á mánuði. 

Ef við færum okkur yfir í bankana sést að bankastjóri Arion er með fimm milljónir í laun á mánuði eftir að árslaun hans hækkuðu um tæpar fjórar milljónir á milli ára. Bankastjóri Íslandsbanka lækkaði hins vegar í launum um rúmlega tvær og hálfa milljón á ári og er með 3,8 milljónir á mánuði og bankastjóri ríkisbankans Landsbankans er með svipuð mánaðarlaun eftir að árslaunin hækkuðu um 3,2 milljónir. Árslaun bankastjóra Kviku hækkuðu hins vegar um 12,3 milljónir á milli ára og er hann með 5,3 milljónir í laun á mánuði. 

Sé litið á fyrirtæki í flutningum sést að árslaun forstjóra Icelandair voru tæpar 69 milljónir króna í fyrra og höfðu þá hækkað um nærri 22 milljónir á milli ára, en þetta skilar honum mánaðarlaunum upp á 5,7 milljónir króna. Forstjóri Eimskips fékk 40 milljónir í árslaun eftir að hafa hækkað um tæpar sex milljónir frá árinu á undan og er með rúmar þrjár milljónir á mánuði. Ef við tökum tvö sjávarútvegsfyrirtæki sést að árslaun forstjóra beggja hækkuðu um tíu og rúmlega tíu milljónir á milli ára, forstjóri Brims er því með tæpar fjórar milljónir á mánuði samkvæmt því og framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar er með rúmar fimm milljónir í mánaðarlaun. 

Forstjórar fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækja hækkuðu einni í launum á milli ára, árslaun forstjóra Símans hækkuðu um níu og hálfa milljón og forstjóra Sýnar um rúmar tólf milljónir. Sem fyrr segir er þetta byggt á ársreikningum allra fyrirtækjanna fyrir síðasta ár og rétt að geta þess að RÚV hefur ekki skilað ársreikningi enn þá. 

Við þetta má bæta að algeng föst mánaðarlaun félagsmanna í Eflingu, samkvæmt taxta, eru um 370 þúsund krónur, sem gerir árslaun upp á um fjóra og hálfa milljón króna. 

Árétting: Laun forstjóra Landsvirkjunar voru reiknuð út frá ársreikningi fyrirtækisins þar sem þau eru skráð í dollurum. Samkvæmt þeim útreikningum hækkuðu laun úr 40 í 45 milljónir. Launin eru greidd í krónum og reiknuð í dollara fyrir ársreikning. Forstöðumaður samskipta og upplýsingamiðlunar hjá Landsvirkjun segir að laun forstjóra á síðasta ári hafi numið 43 milljónum og hækkað um 1,3 milljónir króna milli ára, þau hafi verið 41,7 milljónir árið 2020.

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV